139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[00:03]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um frumvarp um vexti og verðtryggingu og flyt við það breytingartillögu. Mig langar fyrst aðeins að ræða frumvarpið í örlitla stund.

Það frumvarp sem rætt er er að mínu mati og margra annarra alveg ótrúleg flækja og í rauninni röng viðbrögð við lögbroti fjármálafyrirtækja. Ég hefði mjög gjarnan viljað sjá leyst úr þessu máli með allt öðrum hætti en gert er, en valið var að fara þessa leið. Ég verð að segja að ég minnist þess ekki í nokkru öðru máli en kannski Icesave að hafa séð svo margar og misvísandi umsagnir um eitt mál. Alls komu 32 umsagnir um þetta mál og í fjölmörgum þeirra, ef ekki öllum, kom fram gagnrýni á frumvarpið með einum eða öðrum hætti. Margir voru mjög rökfastir og gagnrýnir á það. Það komu 39 gestir fyrir nefndina sem höfðu uppi alls konar skoðanir á þessu máli. Ég held að með samþykkt þessa frumvarps sé ríkisstjórnin að fara inn á lagalegt jarðsprengjusvæði sem muni flækja skuldamál heimilanna enn frekar og leiða til enn fleiri dómsmála og flækjustiga í lagasetningu í framhaldinu.

Sú breytingartillaga sem ég mæli fyrir er þess eðlis að hún mundi gera nærri ómögulegt mál algjörlega bærilegt út af fyrir sig og jafnframt jafna stöðu lántakenda gagnvart lánveitendum. Breytingartillagan hljóðar upp á að ný grein, er verði 1. gr., bætist við frumvarpið, svohljóðandi:

„Við 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Verðtryggt lánsfé skv. 14. gr. skal ekki bera hærri vexti en 2%.“

Með því er verið að setja þak á vexti á verðtryggðum lánum og lagt til að verðtryggð lán beri aldrei hærri vexti en nemur 2%.

Við þær sérstöku aðstæður sem íslenskt efnahagslíf býr við þar sem lántakendur einir bera alla áhættu sem kemur til vegna aukinnar verðbólgu — fyrirkomulag sem er einsdæmi í heiminum — yrði þetta brýnt réttlætismál fyrir lántakendur. Sá sem tekur verðtryggt lán er með öllu óvarinn á tímum verðbólgu. Hækki verðlagið þá hækka lánin. Með verðtryggingu er hægt að halda vöxtum lægri en ella vegna þess hve lítil áhætta lánveitandans er. Á Íslandi hafa lánveitendur getað tryggt lánsfjármagnið með verðtryggingu og breytilegum vöxtum, stundum meira að segja hvort tveggja í senn. Verðtrygging lána tryggir hagsmuni lánveitanda með þeim hætti að hann er varinn fyrir öllum sveiflum í verðlagi. Nauðsynlegt er að taka verðtryggingu lána í heild sinni til endurskoðunar, en þar til slíkt hefur verið gert er mikilvægt að ná fram þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til sem lágmarksvernd fyrir lántakendur verðtryggðra lána. Með þessu móti er lánskostnaður raunverulega lækkaður í stað þess að einungis sé lengt í snörunni eins og gert er með frestun afborgana í dag.

Lánveitendur hér á landi hafa, eins og menn tala oft um, bæði belti og axlabönd. Með verðtryggðum lánum er einfaldlega búið að taka þann nauðsynlega áhættufaktor úr sambandi sem þarf að vera til staðar í eðlilegu markaðsumhverfi. Það er ekki hægt að tala um eðlilegan markaðsbúskap í samfélagi þar sem áhættan liggur öll öðrum megin. Það er samfélag þar sem sá sterki hefur náð undirtökum og ræður ferðinni algjörlega sjálfur hvað fjármagnið varðar.

Við erum að súpa seyðið af því núna með skuldum heimila upp á 1.300 milljarða, risavaxnar verðbætur sem enginn reiknaði með, verðbætur sem renna í vasa fjármagnseigenda, verðbætur sem þeir reiknuðu ekki einu sinni sjálfir með, plús vextir ofan á það allt saman.

Seðlabankinn sendi inn umsögn um þessa breytingartillögu. Í umsögn hans segir, eins og kannski var við að búast, enda helsti advókat verðtryggingar á Íslandi:

„Seðlabankinn er mótfallinn þeirri hugmynd sem fram kemur í breytingartillögunni, enda mundi hún valda talsverðri röskun á verðmyndun á skuldabréfamarkaði og mögulega leiða til verri aðgangs heimila að lánsfé til húsnæðiskaupa í framtíðinni.“

Mér finnst umsögn Seðlabanka Íslands alveg ótrúleg þar sem hún hafnar breytingunni á þeim forsendum að hún muni valda röskun á verðmyndun á skuldabréfamarkaði. Það virðist ekki sem þeir geri sér nokkra grein eða reyni að gera sér nokkra grein fyrir hvaða áhrif það mundi hafa á lántakendur og skuldug heimili. Samkvæmt skýrslu sérfræðinganefndar reiknimeistaranna mundi það hafa bein áhrif á yfir 72.000 heimili á landinu. Það eru bara þau heimili sem eru með húsnæðisskuldir. Og ef teknar yrðu inn allar skuldir heimilanna mætti bæta við þann fjölda nokkur þúsundum heimila. Þessi breytingartillaga, yrði hún samþykkt, mundi hafa gríðarlega mikið að segja, hún mundi bæta úr þeim óskapnaði sem frumvarpið er. Hún mundi teygja sig miklu lengra en frumvarpið gerir og gera það að verkum að allir þeir sem eru með verðtryggð lán í framtíðinni mundu fá þau á betri kjörum, eðlilegri kjörum, svo lengi sem menn ætla sér að halda í verðtrygginguna.

Það hefur ekki komið fram hjá einum einasta aðila, ekki hjá hinu opinbera, ríkisstjórninni, ráðuneytum, Seðlabanka eða öðrum, að til standi að fara í þá vegferð að afnema verðtryggingu. Við skulum bara muna að svo lengi sem Ísland býr við verðtrygginguna munum við hafa mjög óeðlilegan fjármagnsmarkað og mjög óeðlilegan lánsfjármarkað, lánamarkað sem þjónar bara aðilanum öðrum megin borðsins en ekki þeim sem þarf á láninu að halda.

Þetta er fyrirkomulag sem verður að breyta og það þarf að koma á eðlilegri fjármögnun á húsnæðisskuldum fólks og annarri fjármögnun. Það er ekki eðlilegt að kenna sig við samfélag sem býr við markaðsbúskap þegar fyrirkomulagið er svona. Þetta er eins konar grín-kapítalismi sem gerir ekkert annað en að velta allri byrðinni yfir á lántakandann með stuðningi stjórnvalda og yfirvalda. Það er gríðarlega óréttlátt og orðið löngu tímabært að lagfæra það. Ég vona það svo sannarlega að breytingartillagan veki þó alla vega umræðu og leiði kannski til þess að hér verði gerð bót á.