139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[00:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hafði lofað sjálfri mér, aldrei þessu vant, að byrja á jákvæðu þáttunum í frumvarpinu. Þeir eru á heildina litið tveir að mínu mati. Við erum ekki bara að fjalla um eitt mál, við erum með bandorm á milli handanna þar sem lagðar eru til breytingar á fleiri en einum lögum. Ég tel að sú úrskurðarnefnd sem lagt er til að sett verði á stofn til ákveðinna úrlausna varðandi fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sé jákvætt skref og að sú breyting sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar leggur til, sé til mikilla bóta þar sem megináherslan er á að ef ágreiningur kemur upp er hægt að vísa máli til úrskurðarnefndarinnar. Hér er fyrst og fremst átt við ágreining á milli kröfuhafa en ekki á milli kröfuhafa og þess fyrirtækis sem ætlunin er að fari í gegnum endurskipulagninguna. Ég tel það vera breytingu til batnaðar og muni hjálpa við að flýta fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja, sem er orðið mjög brýnt.

Í frumvarpinu kemur fram mjög greinilegur vilji til að komast að ákveðinni lausn, ákveðinni niðurstöðu varðandi mjög stórt ágreiningsefni sem er lögmæti gengistryggðra lána. Ég er hins vegar ekki sátt og hef mikla fyrirvara varðandi þá leið sem þar á að fara. Komið hefur ítrekað fram í meðferð málsins innan efnahags- og skattanefndar að mjög stór vafaatriði varða þetta frumvarp. Til að nefna nokkur er vísað til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar í 65. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Það má svo sannarlega velta upp þeirri spurningu hvort gætt sé jafnræðis gagnvart þeim neytendum sem tóku gengistryggð lán. Samkvæmt þessari skilgreiningu er ekki veitt sama úrlausn öllum þeim sem hugsanlega gætu verið skilgreind sem gengistryggð lán, og svo ég taki fyrirtækin til hliðar er ekki verið að meðhöndla neytendur jafnt hvað úrlausn varðar.

Síðan hefur líka verið vísað til eignarréttarákvæðisins, hugsanlega gæti komið betri niðurstaða fyrir dómstólum, bæði hvað varðar kröfuhafa og hugsanlega líka lántakendur, þannig að það gæti farið á hvorn veginn sem er varðandi eignarréttinn.

Síðan velti ég upp spurningum varðandi afturvirknina sem mér finnst liggja í niðurstöðu Hæstaréttar. Það á eflaust eftir að reyna á úrskurð Hæstaréttar í vaxtaágreiningnum, hvort sú niðurstaða, sem að mínu mati er afturvirk og var til skaða fyrir þann sem er minni máttar í málinu, varðar líka, eins og var bent á í umsögnum, við alþjóðleg mannréttindaákvæði og það sem greina má í ákvæðum í okkar eigin stjórnarskrá, þ.e. að ekki eigi að beita afturvirkri löggjöf til skaða fyrir þann sem verður nema einhverjar bætur komi í staðinn.

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir fór ágætlega í gegnum þær ábendingar sem komið hafa varðandi evrópsk neytendasjónarmið og tilskipunina sem kemur fram í 36. gr. samningalaganna þannig að það eru þrjú tiltölulega stór atriði sem nefna má sem gera það að verkum að mjög stór og rauð viðvörunarmerki kvikna þegar maður fer í gegnum frumvarpið.

Bent var á að löggjafarvaldið, Alþingi, tæki hér að sér hlutverk dómstóla til að komast að þessari niðurstöðu vegna þess að það er skýr vilji, sem ég tek að vísu undir, til að reyna að fá ákveðna úrlausn á þessu stóra vandamáli sem við erum að fást við, á því mikla kaosi sem hrun krónunnar og svo í framhaldinu niðurstaðan um ólögmæti gengistryggingarinnar eru.

Til þess að benda á aðrar leiðir sem komið hafa fram, bæði í frumvarpi sem ég hef sjálf lagt fram og í tillögum sem aðrir hafa komið með í umræðuna og sent til þó nokkuð margra ráðherra, bendi ég á að strax í febrúar og þegar niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir, lagði ég fram frumvarp um að tryggja flýtimeðferð sambærilegra mála. Ástæðan fyrir því að ég lagði málið strax þá fram var sú að þegar ég fór að kynna mér það var algjörlega á hreinu að fjölmörg önnur mál mundu fylgja í kjölfarið. Fulltrúi réttarfarsnefndar benti á við meðferð frumvarpsins í þinginu að það væru um 10–40 mál sem þyrfti að taka á til þess að fá skýrt fordæmisgildi varðandi lánasamningana því að þeir væru það fjölbreyttir. Réttarfarsnefnd lagðist hins vegar mjög skýrt gegn frumvarpinu og taldi að það þyrfti að fá að fara sinn feril í gegnum dómskerfið. Ég veit ekki hvort viðkomandi taldi að Hæstiréttur mundi ekki staðfesta niðurstöðu héraðsdóms en mér fannst á því samtali að viðkomandi teldi það koma ágætlega til greina, sem reyndist og vera.

Síðan er það hin tillagan sem ég bendi á, sem ég tel að að vissu leyti sé tekið undir í frumvarpi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og síðan með þeim breytingartillögum sem koma fram frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar, þar er ákveðið gerðardómsfyrirkomulag. Þar með værum við að tryggja meira jafnræði þar sem við mundum reyna að koma öllum þessum ágreiningsmálum í gegnum gerðardóm þar sem við mundum jafnvel geta horft til þess fyrirkomulags sem lagt er til varðandi úrskurðarnefnd fyrir fyrirtæki. Það væri jafnvel hægt að vera með mjög sambærilegt fyrirkomulag varðandi tilnefningar, að vísu þyrfti einhver að koma inn frá Samtökum fjármálafyrirtækja og frá Neytendasamtökunum eða hagsmunasamtökunum og síðan kæmi einn án tilnefningar sem væri þá væntanlega frá ráðherra og svo einn af Hæstarétti.

Þetta er tillaga sem talsmaður neytenda hefur ítrekað talað fyrir og hann var væntanlega einn af þeim fyrstu sem gerðu sér grein fyrir því hvers konar vanda við væri að fást. Þarna værum við ekki að taka okkur hlutverk dómstóla, við gættum þá mun betur að jafnræði milli allra lántakenda. Þar sem bæði kröfuhafar og lántakendur kæmu þarna inn gætum við líka tekið á þáttum er varða eignarréttarákvæðið. Ef menn taka höndum saman ættum við að líka að geta horft fram hjá afturvirkninni.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði, að það er mjög mikilvægt að við förum að sjá í frumvarpsformi sem allra fyrst skýrt framtíðarfyrirkomulag hvað varðar erlendar lántökur. Ábendingar komu um að sveitarfélögum ætti ekki að vera heimilt að taka erlend lán og ég er sammála því. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að Seðlabankinn fái nauðsynleg tæki í hendurnar til að tryggja að fólk leiti ekki í lögleg erlend lán ef bankinn telur ástæðu til þess að hækka stýrivexti. Ástæðan fyrir því að bankinn hækkar stýrivexti er sú að hækka verð á lánsfé og minnka þensluna í samfélaginu og sjá til þess að fólk taki ekki lán. Þegar vextirnir hækkuðu fyrir hrun streymdi fólk yfir í svokölluð ódýrari lán, alla vega með lægri vexti, og við sitjum svo uppi með afleiðingarnar af því. Það er því eitt af því sem ég hvet hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra eindregið til að drífa í samhliða þeirri endurskoðun sem ég veit að er verið að gera á löggjöf um Seðlabanka Íslands og á opinberu eftirliti með fjármálakerfinu.