139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[01:05]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með löggjöfinni er í engu hróflað við rétti fólks til að bera ágreiningsmál undir dómstóla, fólk hefur áfram rétt til að bera álitamál undir dómstóla og sá réttur verður ekki af fólki tekinn.

Vandinn við hugmyndir — ég held að hv. þingmaður verði að gera greinarmun á tvennu, annars vegar viðurkenningu á vanda og hins vegar hvað er tæk úrlausn. Sú úrlausn sem talsmaður neytenda hefur ítrekað lagt fram og sú tillaga um gerðardóm sem leysi málin hefur ekki verið tæk vegna þess að jafnvel þó að hér yrðu samþykkt lög um slíkan gerðardóm getur hann ekki ráðstafað eignarréttindum kröfuhafa nema þeir samþykki það og þeir hafa ekki viljað samþykkja það. Þegar af þeirri ástæðu gengur sú hugmynd ekki upp. Og eins og talsmaður neytenda hefur viðurkennt í samstarfi um úrlausnir í skuldamálum heimilanna verður að ná niðurstöðu þar með samkomulagi. Við höfum setið núna löngum stundum á haustmánuðum og í vetrarbyrjun og reynt að þoka kröfuhöfum í eðlilegar áttir, það hefur tekið mikla orku, og við sjáum auðvitað að Hæstiréttur er réttilega mjög á varðbergi gagnvart einhvers konar takmörkunum á stjórnarskrárvörðum eignarréttindum kröfuhafa eins og gerst kom fram í nýföllnum dómi varðandi ábyrgðarmenn. Þess vegna verður löggjafinn að hafa skýr rök fyrir inngripi í hverju og einu tilviki og þess vegna er það bjargföst skoðun mín að sú löggjöf sem hér er til umræðu nái að feta þann vandrataða meðalveg, að veita fólki rétt sem (Forseti hringir.) það hefur ekki annars en án þess að í því felist inngrip í stjórnarskrárvarin eignarréttindi kröfuhafa.