139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[01:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar í 301. máli. Tilefni frumvarps þessa er frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra sem miðar að því að færa málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, 256. mál, sem varð að lögum fyrr í dag. Til grundvallar því frumvarpi liggur viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga frá 13. mars 2009. Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar felast tvenns konar breytingar:

Í fyrsta lagi er lagt til að þeir starfsmenn sem eru félagar í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu og gerast 1. janúar 2011 starfsmenn sveitarfélaga í stofnunum eða einingum í málaflokki fatlaðra skuli eiga þess kost að vera áfram í því stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð þeirra við sveitarfélögin. Frumvarpið felur í sér svokallað sólarlagsákvæði enda er gert ráð fyrir því að starfsmenn sem koma til starfa í einingum eða stofnunum fyrir fatlaða hjá sveitarfélögunum eftir framangreint tímamark skuli vera félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi.

Í öðru lagi er lagt til að þeir starfsmenn sem eiga aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fái aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga en þeir sem óska þess fái þó að halda aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með samþykki viðkomandi sveitarfélags. Starfsmenn sem eiga aðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga halda þeirri aðild, svo og þeir starfsmenn sem eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt en á bak við þetta meirihlutaálit eru eftirtaldir þingmenn: Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, Álfheiður Ingadóttir varaformaður, sá sem hér stendur, Magnús Orri Schram, Birkir Jón Jónsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Róbert Marshall.