139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

raforkulög.

204. mál
[01:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (frestun gildistöku ákvæðis um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi) frá meiri hluta iðnaðarnefndar.

Í upphafi nefndarálitsins er talið upp hverjir komu fyrir nefndina og tel ég ekki ástæðu til að lesa það upp.

Með frumvarpinu er lagt til að framkvæmd ákvæða raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta verði frestað til 1. janúar 2012. Iðnaðarráðuneytið mun þá nýta þann tíma sem gefst til að láta fara fram hagfræðilega úttekt á því hvort sá fyrirtækjaaðskilnaður sem mælt er fyrir um í gerðum Evrópusambandsins á sviði raforkumála, samanber tilskipun 2003/54/EB og tilskipun 2009/72/EB, eigi að öllu leyti við um markaðsaðstæður hér á landi og hvort hann sé til þess fallinn að skapa samkeppnisumhverfi sem sé neytendum raforkuþjónustu til hagsbóta.

Ákvæði þau sem hér um ræðir voru samþykkt á Alþingi árið 2008 með lögum nr. 58/2008, í þá veru að gerð er krafa um að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja verði rekin í aðskildum fyrirtækjum frá og með 1. júlí 2009. Í kjölfar lagabreytinganna átti sér stað 1. janúar 2009 formleg uppskipting Hitaveitu Suðurnesja hf. í HS Orku hf., sem annast virkjanir og raforkusölu, og HS Veitur hf., sem annast veitustarfsemi fyrirtækisins, en ekki hefur orðið af sams konar uppskiptingu innan Orkuveitu Reykjavíkur. Orkuveita Reykjavíkur óskaði eftir því með bréfi 6. september sl. að iðnaðarráðherra flytti frumvarp til laga um frestun gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga. Hér er því um að ræða þriðju frestunina á framkvæmd þessara ákvæða en með lögum nr. 142/2009, um breytingu á raforkulögum, var gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga frestað í annað sinn til 1. janúar 2011.

Nefndin hefur fjallað um málið. Fram komu hjá umsagnaraðilum ábendingar um að Orkuveita Reykjavíkur hefði misnotað undanþágu sína frá aðgreiningu á samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi með hækkun gjaldskrár raforkudreifingar síðastliðið haust. Meiri hlutinn vill benda á að samkvæmt raforkulögum er Orkuveitu Reykjavíkur óheimilt að niðurgreiða samkeppnisrekstur fyrirtækisins með sérleyfisstarfseminni og hefur Samkeppniseftirlitið eftirlit með því og ákveðin úrræði. Meiri hlutinn vill þó taka fram að á fundi nefndarinnar með Samkeppniseftirlitinu kom fram að því hefur borist ábending um hvort samkeppnislög hafi verið brotin og er málið í rannsókn. Endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir í málinu.

Meiri hlutinn vill einnig benda á að óleyst er fyrirsjáanlegt skattalegt óhagræði við færslu á eignum úr móðurfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, sem er sameignarfyrirtæki, í dótturfélag en eignir sem flytja þyrfti á milli nema verulegum fjárhæðum. Við þann flutning myndast skattalegur hagnaður en meginreglan er að í skattalegu tilliti er farið með skiptingu félaga sem sölu eigna til þeirra félaga sem við taka. Þó eru þær undantekningar að slíkt nær einvörðungu til hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnufélaga en eins og að framan greinir er Orkuveitan sameignarfyrirtæki og fellur ekki undir neitt þeirra félagaforma. Við uppskiptingu fyrirtækisins gætu því myndast skattskyldar tekjur, sem næmu mismun raunverðs og skattalegs bókfærðs verðs þeirra eigna er frá fyrirtækinu flyttust í dótturfélög. Uppsafnað skattalegt rekstrartap mundi hins vegar ekki að neinu leyti flytjast til viðtökufélagsins. Þessi staða yki enn á óhagræði Orkuveitu Reykjavíkur af því að ráðast í uppskiptingu fyrirtækisins.

Í umsögnum um málið kom fram óánægja með að fresta ætti gildistöku ákvæða um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi til 1. janúar 2012. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið en áréttar að óumflýjanlegt sé að fresta gildistöku ákvæðisins í ljósi aðstæðna á fjármálamörkuðum, viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna varðandi fjármögnun og þess að þörf er á hagfræðilegri úttekt á framangreindum fyrirtækjaaðskilnaði.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita fimm hv. nefndarmenn í iðnaðarnefnd, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Magnús Orri Schram og sá sem hér stendur, formaður nefndarinnar.