139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

atvinnuleysistryggingar og málefni aldraðra.

339. mál
[02:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fél.- og trn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum, frá 2. minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.

Meginefni fyrirliggjandi frumvarps felst í því að lengja þann tíma sem atvinnuleitendur geta verið á bótum úr þremur árum í fjögur ár. 2. minni hluti fellst á þessa breytingu á lögunum af illri nauðsyn þar sem ekkert lát virðist vera á atvinnuleysi og ekkert gengur að skapa skilyrði til þess að atvinna verði til. Endurteknar hækkanir skatta á tekjur, fjármagnstekjur og hagnað fyrirtækja, sem og hækkanir á tryggingagjaldi, gera ekki fýsilegt fyrir einstaklinga og fyrirtæki að fjárfesta og skapa þar með atvinnu til framtíðar. Á sama tíma er farið í harkalegan niðurskurð sem leiðir til uppsagna opinberra starfsmanna sem líkur eru á að finni ekki nýtt starf í atvinnuleysinu og bætist því í hóp atvinnuleitenda. Það er mjög skaðlegt fyrir einstakling að vera lengi í stöðu atvinnuleitanda og sýna rannsóknir að einstaklingar í langvarandi atvinnuleysi enda oft sem öryrkjar. Brýna verður fyrir ríkisstjórninni að tryggja aðstæður til að atvinna geti skapast. Vil ég endurtaka þetta, frú forseti, að hæstv. ríkisstjórn taki sig á í því að skapa umgjörð fyrir aukna atvinnu.

Eftir efnahagshrun voru sett ákvæði um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli sem gerðu t.d. fyrirtæki með tíu starfsmönnum, sem þurfti að segja upp 10% starfsmanna vegna samdráttar, mögulegt að segja hverjum starfsmanni upp 10% í stað þess að segja einum starfsmanni upp að fullu. Þetta fyrirkomulag hafði mjög marga kosti. Áfallið fyrir starfsmenn varð miklu minna, þeir héldu tengslum við vinnumarkaðinn og voru virkir. Fyrirtækið hélt í verkþekkingu og reynslu starfsmanna og gat ráðið þá aftur að fullu þegar staðan batnaði. Því miður hefur þetta kerfi verið holað með því að hækka það hlutfall sem fólk má minnst vera atvinnulaust í sparnaðarskyni. Hér er enn verið að hækka þetta hlutfall úr 20% í 30%. 1. minni hluti gerir tillögu um að þetta ákvæði gildi einungis fyrir þá sem verða atvinnulausir eftir 1. janúar 2011. Það er ákveðin bót. 2. minni hluti efast um að þessi breyting spari neitt vegna þess að fyrirtæki muni þá segja fólki upp 30% í stað 20% og kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs mun aukast um 50% í því tilfelli þegar hann þarf að borga 30% atvinnuleysi í staðinn fyrir 20%. 2. minni hluti er eindregið á móti þessari breytingu af þessum tveimur ástæðum.

Efnahagsbatinn, sem áætlað var að hæfist á þessu ári, hefur látið á sér standa. Það stafar fyrst og fremst af vanhugsuðum aðgerðum í skattamálum, aðgerðaleysi við að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja og mótstöðu við uppbyggingu atvinnulífs. Atvinnuleysi, minni ráðstöfunartekjur og kaupmáttarrýrnun eru því miður staðreynd. Við þessu verða stjórnvöld að bregðast. Skapa verður framtíðarsýn og blása fólki aftur von í brjóst, en það verður aðeins gert með því að efla atvinnustarfsemina á ný.

Frá miðju ári 2008 fram á mitt ár 2010 töpuðust um 22.500 störf á Íslandi. Um 16.200 urðu atvinnulausir en 6.300 manns hurfu af vinnumarkaði. Lauslegir útreikningar sýna að hvert starf kostar ríkissjóð um 3 millj. kr. í bætur og tapaðar skatttekjur á ári. Þá er ekki talið til allt það framleiðslutap og óbein áhrif sem þjóðfélagið verður fyrir. Bein áhrif á ríkissjóð af töpuðum störfum eru því allt að 70 milljarðar kr. á ári.

Þetta eru allt saman tölur, frú forseti. Hér er talað um efnahagsleg áhrif og það er verið að tala um peninga, það er verið að tala um fjölda. En hver einasti maður er einstaklingur sem hefur misst vinnuna og við megum aldrei gleyma honum. Það er fólk sem missir vinnuna. Fyrst heldur það að þetta sé nú í lagi, þetta lagist, það fái vinnu, hefur alltaf unnið. Svo kemur í ljós að það er enga vinnu að hafa. Og 4.500 manns hafa verið atvinnulausir í tólf mánuði eða lengur, og það er ekki líðandi, frú forseti.

Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar á þremur fundum nefndarinnar. Félags- og tryggingamálaráðuneytið lagði fram viðamiklar breytingartillögur við frumvarpið sem kynntar voru stuttlega í nefndinni og má segja að um gerbreytt frumvarp sé að ræða. Í þessu frumvarpi, eins og í flestöllum málum sem ég hef komið nálægt undanfarið, er gífurlegur hraði á hlutunum. Það næst ekki að ræða nokkurn skapaðan hlut og mikil hætta er á mistökum í alls konar atriðum.

Í nefndarálitinu, sem ég ætla ekki að lesa frekar, er nefnt að Alþingi hafi samþykkt þingsályktunartillögu í sumar með öllum greiddum atkvæðum, 63:0, þar sem sagt var að auka þyrfti sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hér verðum við vör við það að framkvæmdarvaldið keyrir yfir Alþingi aftur og aftur með frumvörpum sem koma allt of seint fram og þarf að gera gífurlegar breytingar á svo að varla gefst tími til að lesa þau. Nú ræðum við, klukkan 20 mínútur yfir tvö, þetta veigamikla mál þar sem verið er að skemma mjög fallega hugsun sem fólst í því að vera með hlutaatvinnuleysisbætur og þetta ber að harma.

Ég ætlaði að koma með breytingartillögu við frumvarpið, frú forseti. En því miður, þó að ég hafi unnið eina nóttina til kl. 4 eða 5, þá náði ég því ekki. Ég ætlaði að koma með breytingartillögu um viðveru, þ.e. að sá hópur sem hér er að bætast við, úr þremur í fjögur ár, verði virkur. Það er nefnilega þannig að það er verst fyrir atvinnulausa manninn og sérstaklega ungt fólk að vera ekki virkt, þurfa ekki að mæta í vinnuna, þurfa ekki mæta neins staðar og vera einhvers staðar heima hjá sér, dólandi og gerandi ekki neitt. Lífið verður tilgangslaust.

Jafnframt er verið að tala um að það er mjög mikil misnotkun á þessu kerfi og þegar maður les frumvarpið í gegn, sem er orðið mjög flókið, þá er mikið um aðgerðir til þess að takmarka og koma í veg fyrir misnotkun. Ég hef leitt að því hugann, og vildi gjarnan að það yrði rætt, t.d. í félagsmálanefnd, að tekið yrði upp úrræði sem héti viðvera þar sem fólk bara mætti kl. 9 á morgnana, atvinnuleitandi fólk mætti kl. 9 á morgnana og væri að til kl. 5. Á staðnum væri aðstaða, skrifstofuborð, tölvur og annað slíkt, og menn mundu mæta þarna. Myndaðir yrðu hópar, kannski 10–20 manns í hverjum hóp, og hópurinn kysi sér hópstjóra. Hópstjórinn sæi um þetta venjulega utanumhald utan um hópinn, að fólk mæti á réttum tíma og annað slíkt, og ef það mætir ekki á réttum tíma sé dregið af því. Það yrði borgað aukalega fyrir þetta, 3% ofan á atvinnuleysisbætur, til þess að bæta í ef menn þurfa að kosta í strætó, eitthvað slíkt. Og hópstjórinn fengi kannski 10% eða 15% álag til viðbótar fyrir að stjórna hópnum.

Hópurinn yrði síðan látinn kenna. Íslenskir unglingar sem eru atvinnulausir gætu kennt Pólverjum íslensku bara með því að lesa blöðin og spjalla við þá yfir kaffibolla. Pólverjarnir, sem sumir eru hámenntaðir, gætu kennt þeim stærðfræði, prósentureikning og annað slíkt, sem íslensku unglingarnir, sumir hverjir, kunna ekki einu sinni. Ég hygg að innan hópsins yrði örugglega næg reynsla og þekking til að stunda sjálfskennslu innan hópsins. Við mundum koma algjörlega í veg fyrir misnotkun því að ef fólk ynni einhvers staðar til viðbótar yrði það bara að gera það á kvöldin, það er bara aukavinna, fólk getur ekki gert það á daginn.

Það hefur verið nefnt að sjómenn, sem eru á mjög háum launum annan hvern túr, sem er sjálfsagt, geta verið á atvinnuleysisbótum á milli, sem mér finnst ekkert sérstaklega sjálfsagt, frú forseti. Menn sem eru kannski með 1,5 milljónir fyrir einn túr séu svo að skrapa botninn með atvinnuleysisbótum hinn mánuðinn. Þeir mundu ekki nenna því með því að þurfa að mæta alltaf frá 9 til 5. Ég hugsa að við mundum með þessu slá tvær flugur í einu höggi, frú forseti, að virkja hinn atvinnuleitandi mann og um leið koma algjörlega í veg fyrir misnotkun. Og ég held að síðari þátturinn muni borga allan kostnað við þetta þannig að við mundum ná þarna mjög mörgu fram.

Eitt af verkefnum þessa hóps gæti verið að sækja um störf, að menn mundu aðstoða hver annan við að sækja um og skoða hvar möguleikarnir eru bestir o.s.frv. Ég held að við ættum að skoða þessa leið. Því miður, eins og ég segi, vannst mér ekki tími til þessa nótt sem ég vann breytingartillöguna að klára hana enda eru lögin mjög flókin og hraðinn hefur verið mikill.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Unnur Brá Konráðsdóttir.