139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

atvinnuleysistryggingar og málefni aldraðra.

339. mál
[02:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessu máli fyrst og fremst til að taka það fram að ég er samþykkur nefndaráliti 1. minni hluta en gat af óviðráðanlegum orsökum ekki verið með á fundinum þar sem málið var tekið út og er því ekki með á nefndarálitinu hvað þetta varðar.

Varðandi málið allt vil ég hins vegar taka það fram að ég er samþykkur þeim breytingartillögum sem fram koma. Þær eru mjög í anda þeirra atriða sem ég og fleiri nefndarmenn nefndum við 1. umr. og ég held að þær séu allar til bóta. Ég hefði getað hugsað mér að ákvæðið um framlengingu á hlutabótunum hefði verið framlengt um eitt ár í senn en í umræðum í nefndinni og í upplýsingum frá bæði Vinnumálastofnun og ráðuneytinu komu fram rök sem gera það að verkum að ég tel, eftir á að hyggja, skynsamlegra að fresta þessu í sex mánuði í senn, það má þá bæta við síðar.