139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[02:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða um það í frumvarpinu sem fjallar um valdsvið gagnvart viðbragði eða eldvörnum á flugvöllum.

Viðbúnaðarþjónusta flugvalla er flugöryggismál sem er á mjög háu stigi víðast hvar í heiminum, alla vega í þeim löndum sem við berum okkur saman við, og það sama á við um stöðuna hér á landi. Það má segja að þjónustan sé viðbót við lögbundnar skyldur slökkviliða sveitarfélaga til þess að tryggja fyrsta viðbragð þar til aðrir viðbragðsaðilar mæta á vettvang, eins og skilgreint er í flugslysaáætlunum á grundvelli laga um almannavarnir.

Það má segja að áhættustuðull flugvalla sé nálægt núllinu. Flugslys á flugvöllum eru mjög sjaldgæf og aukinn viðbúnaður til þess að auka viðbragð á flugvöllum er fyrst og fremst til þess fallinn að leiða af sér aukinn kostnað. Eftir að hafa í mörg ár fylgst með þessum málaflokki hef ég verið að reyna að rifja upp flugslys á t.d. Reykjavíkurflugvelli þar sem hefur þurft að slökkva elda. Ég man bara eftir einu slysi, þau gætu verið fleiri, en ég man eftir kanadískri vél sem fórst hér í Reykjavík, náði ekki inn á braut, árið 1981 held ég að það hafi verið. Það hafa einnig orðið slys við Reykjavíkurflugvöll þar sem vélar hafa farið í sjóinn stutt undan flugbrautum. Ég hef a.m.k. komið að tveimur slíkum slysum. Þá reynir ekki á slökkvigetu viðbúnaðarins heldur allt aðra þætti þar sem kemur að því að beita bátum og köfurum við að reyna að bjarga þeim sem bjargað verður.

Við erum aðilar að alþjóðlegum samningum á þessum vettvangi þar sem kröfur eru strangar. Við uppfyllum allar okkar skyldur í þeim efnum og höfum gert allan tímann í mörg ár.

Það er eitt stjórnvald sem fer með málefni flugsins, Flugmálastjórn. Má segja að þær breytingar sem hér eru lagðar til gangi að ákveðnu leyti þvert á alþjóðasamþykktir. Í framhaldi mundu ákvarðanir og skipulag byggja á mati slökkviliðsstjóra sveitarfélaga. Ákveðin hætta er á að þetta muni leiða til óskýrra valdmarka og skapa réttaróvissu.

Skipulag viðbúnaðarþjónustu flugvalla hefur verið með þessu sniði í yfir 50 ár án afskipta sveitarfélaga og hefur gengið vel. Lengi vel voru kröfurnar á okkar stóra alþjóðaflugvelli í Keflavík miðaðar við að þar var mikil umferð herflugvéla og herþotna og viðbúnaðurinn því kannski meiri en gengur og gerist og kostnaðurinn við það greiddur af varnarliðinu. Í Reykjavík var lengi vel rekið sérslökkvilið en á seinni árum hefur verið samkomulag við slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um að sinna þessari þjónustu.

Nýlega er afstaðin úttekt Alþjóðaflugmálastofnunarinnar á Íslandi þar sem m.a. er staðfest mjög gott skipulag viðbúnaðarmála hér á landi. Kröfur um viðbúnaðarþjónustu á Íslandi eru með svipuðu sniði og annars staðar á Norðurlöndum þó að áherslur geti að einhverju leyti verið breytilegar hvað varðar fjölda manna sem eru í viðbúnaðarliði á hverjum tíma. Þá er vitað að Evrópusambandið er með ákveðna endurskoðun á þessum málaflokki og ekki ólíklegt að þaðan komi reglur sem við þurfum að uppfylla og innleiða hér á næstu árum vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Þá má nefna að menntunarkröfur í viðbúnaðarþjónustu flugvalla eru almennt meiri hér á landi en gengur og gerist meðal flestra slökkviliða. Það er náttúrlega mjög algengt að slökkviliðsmenn séu í hlutastörfum úti um allt land.

Hv. formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Mörður Árnason, kom inn á þann kostnað sem Flugmálastjórn og Isavia telja að muni leiða af breytingu þessara laga en stofnanirnar leiða að því líkur að það geti kostað allt að 320 milljónum í árlegum viðbótarkostnaði. Um þetta er deilt. Brunamálastofnun hefur gagnrýnt þessar tölur og telur að kostnaðurinn sé ekki svo mikill en um þetta atriði er óvissa og er mjög bagalegt að ekki hafi fengist niðurstaða í málið. Þetta er auðvitað mikið ágreiningsefni, sérstaklega þegar við stöndum í miklum niðurskurði í allri samfélagsþjónustu og ekki veitir af öllum upphæðum sem við getum fengið til að byggja upp grunnþjónustu í landinu. Í því tilliti eru þetta háar upphæðir.

Ef þessar kostnaðarhækkanir verða, eins og er ágætlega rökstutt í bréfi frá Flugmálastjórn og Isavia, lenda þær á ríkissjóði. Ekki er gert ráð fyrir þeim á fjárlögum fyrir næsta ár. Þá er spurning hvaðan fjármagnið yrði tekið, annaðhvort kæmi það úr ríkissjóði eða hækkanir yrðu á þeim gjaldskrám sem gilda. Ef þetta leiðir af sér enn frekari hækkun á gjaldskrám á innanlandsflugi mun það grafa undan starfsemi þess. Fyrir það fólk úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu sem þarf að nýta sér innanlandsflug er sá kostnaðarliður ansi hár nú þegar. Það er ekki óalgengt að farmiði fram og til baka kosti milli 20 og 30 þúsund fyrir einstakling til helstu áætlunarstaða eða stærri staða í innanlandsflugi.

Það má segja að ákveðnar forsendur séu gefnar í þeim þjónustusamningum sem nú eru á milli Isavia og slökkviliða sveitarfélaga og hefur í mörgum tilfellum náðst þar góður grundvöllur fyrir góðu samstarfi sem viðbúið er að yrði sett í ákveðið uppnám með þessum breytingum á lögum. Mikilvægt er fyrir okkur að tryggja samfellu í þjónustunni vegna fyrsta og annars viðbragðs. Það verður í sjálfu sér ekki leyst með því að slökkvilið sveitarfélaga fari að setja kvaðir á flugvellina eða ríkissjóð heldur þarf að samræma kröfurnar. Það skiptir í raun meira máli fyrir björgun vegna flugslysa að gerðar séu kröfur um meiri samhæfingu á milli viðbragðsaðila.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, vil ég ítreka það sem kom fram hjá formanni umhverfisnefndar, hv. þm. Merði Árnasyni, að mikill ágreiningur er um þetta mál. Það er búið að vera að vinna að því í nokkurn tíma. Það er ákaflega sérstakt að á milli þeirra ráðuneyta sem um ræðir, ráðuneytis umhverfismála og samgöngumála, náðist ákveðin sátt en hv. umhverfisnefnd var ekki sammála þeirri niðurstöðu og fylgir því málinu eftir í augljósum ágreiningi hér innan þingsins. Aðrir þættir í þessu frumvarpi hafa tekið breytingum og önnur ágreiningsmál hafa verið leidd til lykta þannig að ásættanlegt er og ákvörðun um þau frestað og þeim vísað til viðkomandi ráðuneyta til frekari skoðunar og úrvinnslu. Ég mun styðja tillögu þess efnis að eins verði farið með þetta ágreiningsmál.

Það er eiginlega útilokað að stíga svo stórt skref í grundvallarbreytingum á málum sem hafa verið í gildi í áratugi og ætti í raun ekki að þurfa að vera svo mikill ágreiningur um þau. Við ættum að geta náð einhverri niðurstöðu eða samstöðu í þinginu í því uppgjöri sem verður á milli stofnana, kannski sérstaklega í ljósi þess ágreinings sem er um þann mikla kostnað sem Flugmálastjórn og Isavia halda fram að verði samfara þessum breytingum. En eins og ég sagði áður er um það ágreiningur og í ljósi þess ágreinings hefði ég haldið að farsælast væri fyrir okkur að fresta ákvörðunum um þann þátt málsins, leiða til lykta ágreininginn og komast að niðurstöðu um hvernig megi haga málum þannig að óyggjandi sé að af þessu hljótist ekki sá viðbótarkostnaður sem er lagt fyrir okkur að geti fylgt breytingunum.