139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[03:13]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið en samningurinn um Þróunarsjóð EFTA kveður á um fjárhagslegan stuðning EES/EFTA-ríkjanna við aðildarríki Evrópusambandsins sem standa illa í efnahagslegu tilliti. Markmiðið er að jafna samkeppnisstöðu ríkja Evrópska efnahagssvæðisins með því að draga úr efnahagslegri og félagslegri misskiptingu innan svæðisins. Samningar þessa efnis hafa gilt fimm ár í senn frá gildistöku EES-samningsins árið 1994 og voru þeir fyrst framlengdir árið 1999 og aftur árið 2004.

Nefndin leggur áherslu á að með nýjum samningi um Þróunarsjóðinn hefur tekist að halda framlagi Íslands óbreyttu eða að hámarki 6,8 millj. evra á ári. Þá áréttar nefndin að með frumvarpi þessu er verið að breyta 117. gr. EES-samningsins þar sem vísað er til bókana um Þróunarsjóð EFTA en ekki lögfesta bókanirnar sjálfar. Þá fagnar nefndin því að samhliða endurnýjun samnings um Þróunarsjóð EFTA var endurnýjaður samningur um niðurfellingu tolla á ákveðnu magni tiltekinna sjávarafurða sem er mikilvægt hagsmunamál fyrir íslenskan sjávarútveg.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta nefndaráliti undirrita Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Björgvin G. Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, með fyrirvara.