139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[03:24]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Um þetta mál hafa staðið verulegar deilur, bæði úti í samfélaginu, í tíu ár að minnsta kosti, og á þinginu hefur nokkuð borið á óánægju með niðurstöðu umhverfisnefndar sem ég harma því að ég tel að það hafi verið góð niðurstaða. Til þess að þingið geti orðið samferða og til þess að stjórnsýslan geti loksins tekist á við málið og ráðherrar framkvæmdarvaldsins sinnt hlutverki sínu höfum við, sem hér erum í kvöld og áhuga höfum á þessu máli og höfum komið að því, náð sáttum um að flytja breytingartillögur sem 1. flutningsmaður kynnir hér á eftir, hv. þm. Kristján L. Möller, sem áður hafði flutt breytingartillögu sem nú verður breytt í annað skipti. En auk hans flytja þessa tillögu hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, Birgir Ármannsson, Skúli Helgason, Ólafur Þór Gunnarsson og sá sem hér talar er síðastur af flutningsmönnunum.

Í stuttu máli gengur tillagan út á það að brott falli 2. töluliður og 5. töluliður breytingartillögu nefndarinnar þar sem lögð var til sú skipan sem umhverfisnefnd taldi réttasta í flugvallarmálinu en við frumvarpið bætist hins vegar nýtt ákvæði til bráðabirgða og hljóðar svo að við gildistöku laga þessara skuli umhverfisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hrinda af stað vinnu sem miði að því að samræma gildissvið laga nr. 75/2000, um brunavarnir, með síðari breytingum, og laga nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum.

Vinnan á að miðast við það að skýra ákvæði laganna, meðal annars hvað varðar viðbragðsstyrk á flugvöllum, starfsleyfisskyldu þeirra og eftirlit með þeirri starfsemi. Niðurstaða þeirrar vinnu skal kynnt umhverfisnefnd og samgöngunefnd Alþingis eigi síðar en 15. maí 2011. Þetta tryggir í fyrsta lagi að frumvarpið sem um ræðir, brunavarnafrumvarpið, verður að lögum og þar með er þrennan komin, skipulags-, mannvirkja- og brunavarnaþrennan sem að var stefnt. Í öðru lagi er ráðherranum uppálagt að skila áliti, niðurstöðu vinnu um þetta efni, og nefndirnar, umhverfisnefnd og samgöngunefnd, ræða það svo hvor um sig og síðan saman hvernig með þær tillögur skuli farið. Ég vil fyrir hönd nefndar minnar þakka þeim fyrir sem að þessu máli komu.