139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[10:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Breytingartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Af arfi sem fellur til kirkna, opinberra sjóða, líknar- og menningarstofnana eða félaga skal engan erfðafjárskatt greiða. Sama gildir um handrit, bókasöfn, listaverk og minjagripi séu hlutir þessir ánafnaðir eða gefnir opinberum söfnum landsins eða alþjóðlegum stofnunum.“

Í þeim tilgangi vil ég rifja upp orð hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar þegar hann flutti þessa tillögu, með leyfi forseta:

„Ég tel að tillagan þjóni göfugum tilgangi. Ég tel að tillagan geti bætt samfélagið og sannarlega getur tillagan náð þeim tilgangi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal talar mjög oft um að sé hinn þarfasti. Hún getur dregið úr útgjöldum ríkisins. Það er einfaldlega staðreynd að fyrir það fé sem rennur í gegnum líknarstörf, líknarsamtök til mannúðarstarfa, fæst miklu meira en ríkið þyrfti að reiða af höndum fram ef það yrði ella að vinna þessi sömu störf.“

Við leggjum hér til, hæstv. forseti, að sé háttur sem áður var hafður á og reyndist vel verði tekinn upp aftur í þeim lögum sem væntanlega verða staðfest að endingu á Alþingi síðar í dag.