139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[10:21]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við göngum nú til atkvæða um seinni bandorminn sem kallaður hefur verið sá góði. Við fengum hann inn á borð efnahags- og skattanefndar í byrjun desember. Hann inniheldur 58 greinar. Þetta er eitt það ljótasta frumvarp til laga sem lagt hefur verið fram á Alþingi hin seinni ár. Hér er grautað saman málefnum fatlaðra, nýsköpunarmálum og fjölmörgum öðrum lagabálkum sem efnahags- og skattanefnd Alþingis hafði heila 15 daga til að afgreiða. Það er vinnulag sem á ekki að viðgangast á Alþingi. En ég vil þakka hv. nefndarmönnum í efnahags- og skattanefnd fyrir gott samstarf og ég vil geta þess að tillögur meiri hlutans snúa flestar í jákvæða átt þannig að ég mun greiða atkvæði með breytingartillögunum sem lappa þó eitthvað upp á þetta annars arfaslaka frumvarp, en ég mun sitja hjá við frumvarpið í heild sinni.