139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[10:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er æðioft, sérstaklega eftir hrun, að fólk lendir í vandræðum og neyð, það þarf að skuldbreyta lánum og breyta skilmálum og öðru slíku til að komast hjá gjaldþrotum og leysa vandamál. Það er svo merkilegt að sú neyð hefur verið skattstofn. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn af gæsku sinni veitt undanþágu frá þessari skattlagningarneyð tímabundið, fyrst til næstu áramóta, sem eru alveg að koma, og nú á að framlengja undanþáguna um eitt ár í viðbót en þá ætla menn að skattleggja neyðina aftur.

Við sjálfstæðismenn leggjum til að þetta ákvæði verði gert varanlegt þannig að stimpilgjald verði ekki tekið af vandræðum fólks, af neyð þess, og það er athyglisvert að sjá að sumir greiða atkvæði gegn því að menn hætti að skattleggja neyð. Auk þess er stimpilgjaldið undarlegur skattur sem ætti í rauninni að falla niður og þróunin verður örugglega í þá átt. Ég segi já.