139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[11:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Já, þetta er fagnaðardagur. Hér er stórt skref stigið til nýrrar atvinnugreinar og hún er boðin velkomin til Íslands — netþjónabú, gagnaver, komi þau sem flest og sem fyrst. Hér er, eins og komið hefur fram, búið að búa til skattareglur sem eru í takt við það sem gerist í Evrópu þannig að netþjónabúin hjá okkur búa við sömu rekstrarskilyrði og reglur og gerist úti í Evrópu.

Eins og fram kemur óskaði efnahags- og skattanefnd eftir áliti iðnaðarnefndar 7. desember. Við tókum það fyrir á fjölmörgum fundum en skiluðum ekki áliti til nefndarinnar. Við tókum þó þátt í vinnunni sem þar var unnin. Mér er ánægja að segja frá því að allir iðnaðarnefndarmenn eru mjög ánægðir með þá niðurstöðu sem sett er fram, enda höfum við unnið að því að liðka fyrir þessu máli og ég fagna því. En netþjónabúin eru hér með boðin velkomin og komi þau sem flest. (REÁ: Heyr, heyr.)