139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[11:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Um hartnær 10 ára skeið höfum við árlega endurnýjað heimild til endurgreiðslu á tveimur þriðju hlutum virðisaukaskatts vegna kaupa og innflutnings á hópferðabílum. Sá galli er á þeirri gjöf Njarðar að almenningsvagnar hafa hingað til verið undanskildir.

Hv. efnahags- og skattanefnd var sammála um að nú skyldi breytt til, ekki síst með tilvísun í breytta stefnu sem fram kemur í samgönguáætlun til fjögurra ára um að auka hlut almenningssamgangna. Ég fagna því sérstaklega. Ég hef flutt breytingartillögu í þá veru í hvert sinn sem ég hef haft tækifæri til allt frá árinu 2003. Í því er fólgin mikilvæg viðurkenning á gildi almenningssamgangna sem stjórnvöld verða að styðja með ráðum og dáð í einu og öllu. Ég segi já.