139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[11:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að í þeirri grein sem nú verða greidd atkvæði um er verið að framlengja heimild til að endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað og einnig eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis vegna þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Jafnframt nær sú heimild til byggjenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis vegna þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar og eftirlits með byggingu. Heimildin nær einnig til húsnæðis sem alfarið er í eigu sveitarfélaga og stofnana og félaga sem alfarið eru í þeirra eigu.

Þetta úrræði hefur haft jákvæð áhrif. Það hefur reynst vel. Það hefur haft jákvæð áhrif til aukinnar atvinnu. Úrræðið sem gengið hefur undir heitinu Allir vinna og ég fagna því sérstaklega að heimild til þess úrræðis verður framlengd um eitt ár.