139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[11:22]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna þessu frumvarpi. Stjórnvöld geta svo sannarlega ráðið nokkru um samsetningu bílaflotans með skattlagningu og þar með hvernig við skilum hlut okkar inn í kolefnisbókhaldið, inn í bókhald sem við höfum skuldbundið okkur til að breyta á þann veg að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þeim tilgangi að reyna að bæta loftgæðin á jörðinni allri.

Það hefur vissulega verið mikil vinna í kringum þetta mál árum saman og einnig núna í hv. efnahags- og skattanefnd en ég tek undir hamingjuóskir til okkar allra. Þetta er fyrsta skrefið í því að breyta bílaflota þjóðarinnar, sem á flesta bíla á mann, í þá átt að hann losi minna af gróðurhúsalofttegundum.