139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[11:42]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Forseti. Þessi breytingartillaga mun ganga lengra en flest annað og reyndar allt annað sem þessi ríkisstjórn hefur gert í því að bæta stöðu heimilanna. Hún mun setja þak á verðtryggingu, verðtryggingu sem er með öllu óeðlileg og hún er notuð með óeðlilegri hætti á Íslandi en í nokkrum öðrum löndum. Það er liður í að koma á einhvers konar eðlilegu fjármálakerfi. Það hefur aldrei verið við lýði eðlilegt fjármálakerfi á Íslandi, viðhald verðtryggingarinnar mun halda við þeirri stefnu. Ég lýsi því eftir því hjá ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga hvernig og hvenær þeir ætla að koma á einhverju sem kalla má eðlilegt fjármálakerfi því að í þeim frumvörpum sem verið er að samþykkja í dag er engin stefna í þá veru. Fyrsta skrefið í átt að afnámi verðtryggingar, að setja þak á vexti ofan á verðtrygginguna, er tekið með þessari breytingartillögu og það er svolítið dapurlegt að sjá hvað menn hugsa skammt.