139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

raforkulög.

204. mál
[12:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að hygla Orkuveitu Reykjavíkur, stærsta félagi á Íslandi í smásölu og dreifingu á raforku. Það fyrirtæki hefur haft langan tíma til að undirbúa sig og sá undirbúningur er langt á veg kominn innan fyrirtækisins.

Komið hafa fram alvarlegar ásakanir við meðferð málsins í hv. iðnaðarnefnd og er m.a. sagt að með þessari hækkun misnoti Orkuveita Reykjavíkur hugsanlega undanþágur sínar frá aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi og að ekki þurfi að hafa mörg orð um hversu alvarlegt það er að fyrirtæki sem er ráðandi á markaðnum gangi fram í skjóli sérstakrar undanþágu.

Samkeppniseftirlitið hefur þetta mál til rannsóknar og leggst alfarið gegn því að sá frestur verði lengdur. Það er líka að finna í umsögnum annarra samkeppnisaðila á þessum markaði. Norræna velferðarstjórnin virðist ætla að fara andstætt hagsmunum neytenda en við í minni hlutanum sameinumst um að verja hagsmuni neytenda og segjum því nei við þessu frumvarpi.