139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

atvinnuleysistryggingar og málefni aldraðra.

339. mál
[12:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í nefndaráliti 2. minni hluta er gerð alvarleg athugasemd við þann hraða sem var á þessu máli eins og velflestum málum þingsins. Er þar vísað í þingsályktun sem Alþingi samþykkti í haust samhljóða 63:0 þar sem lögð var áhersla á sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. (ÞSa: Það er löngu gleymt.) Það er löngu gleymt, er kallað fram í, og það er rétt. Framkvæmdarvaldið dembir yfir Alþingi frumvörpum sem alls ekki næst tími til að vinna þannig að sómi sé að og mikil er hætta á alls konar mistökum. Ég verð að víta það sérstaklega, en ég greiði að sjálfsögðu atkvæði með því að frumvarpið nái fram þrátt fyrir þennan gífurlega hraða.