139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[12:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Samið hefur verið um þau framlög sem verið er að greiða atkvæði um í tengslum við EES-aðild okkar og ég tel að okkar ráðamönnum í utanríkisráðuneytinu, embættismönnum og ráðherra, hafi tekist ágætlega að fá skilning viðsemjenda okkar á þeim aðstæðum sem uppi eru á Íslandi vegna þess að hér er ekki verið að auka við okkar hlut.

Við höfum líka náð góðu samkomulagi við hin EFTA-ríkin þar sem þau hafa tekið á sig auknar byrðar á sama tíma og við höfum ekki lagt meira til málanna. Þar sem við málið hanga mjög mikilvægir samningar um aðgang fyrir íslenskar afurðir inn á Evrópska efnahagssvæðið er mjög skynsamlegt að styðja það þrátt fyrir að um sé að ræða afar háar fjárhæðir.