139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[12:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um að ræða að framlengja samning um greiðslur í Þróunarsjóð EFTA sem við höfum verið aðilar að um alllangt skeið. Það er mikilvægt að halda því til haga sem komið hefur fram að af Íslands hálfu hefur ávallt verið lögð á það áhersla að hér er ekki um lagalega skuldbindingu að ræða til greiðslna af þessu tagi. Það er ekki um að ræða hækkun á framlagi Íslands að þessu sinni heldur er hækkunin sem kemur inn í sjóðinn borin af Noregi og Liechtenstein og það gera þessi ríki í ljósi efnahagsaðstæðna hér á landi.

Það er líka nauðsynlegt að árétta að með þessu frumvarpi er verið að breyta 117. gr. EES-samningsins þar sem vísað er til bókana um Þróunarsjóð EFTA en ekki er verið að lögfesta bókanirnar sjálfar.

Samhliða þessum samningi erum við að ræða endurnýjaðan samning um niðurfellingu tolla á ákveðnu magni tiltekinna sjávarafurða sem er mikilvægt hagsmunamál fyrir íslenskan sjávarútveg, fyrir íslenskan útflutningsiðnað, og ég er sannfærður um að þrátt fyrir að hér sé um allháar upphæðir að ræða skili það sér til baka í hagsmunum okkar í íslenskum útflutningi.