139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[12:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér var ekki verið að ræða frumvarp nema það hefði lagabindandi gildi þegar það yrði afgreitt í atkvæðagreiðslu. Til að útskýra hvað verið er að samþykkja þá eru Íslendingar að skuldbinda sig að lögum til að inna af hendi tilteknar greiðslur til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða innan EES með það fyrir augum að stuðla að jafnri og stöðugri eflingu viðskipta og efnahagstengsla.

Í hvaða stöðu erum við Íslendingar? Það er með ólíkindum að þetta mál skuli vera komið fram. Það hanga á spýtunni íslenskir hagsmunir varðandi sjávarútveg og ákveðnar fisktegundir. Ég segi: Hefði ekki verið nær hjá íslenska ríkinu að greiða útgerðinni frekar þessar upphæðir sem eru svo langtum minni en gildir í þessum samningi? Með löggildingu þessa samnings og þeim sem við gerum fyrir árið 2010 er verið að tala um tæpa 7 milljarða, 7.000 millj. kr.