139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

fjarskipti.

394. mál
[12:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Örstutt um málið. Ég tek undir með hv. formanni samgöngunefndar, það er undarlegt að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í nefndinni skuli koma með athugasemdir og ýfingar vegna máls sem þeir voru fullkomlega sáttir við í nefndinni sjálfri, en hugur þeirra hefur væntanlega snúist á fundum með samflokksmönnum sínum.

Það er rétt sem fram kom, þetta mál er flókið og erfitt og við eigum eftir að skoða það. Það er kannski of snemmt að segja til um hvort það er gallað með einhverjum hætti eða vanbúið. Ég er nýr í samgöngunefnd og tel reyndar að því sé líka um að kenna að samgöngunefndarmenn voru óvenjuilla undirbúnir að fara í þetta mál. Ég mætti á tvo fundi af þremur sem um málið voru haldnir og það heldur auðvitað áfram. Ég verð að viðurkenna það með sjálfan mig að ég var ekki mjög fróður um tíðnisviðin og þá heillandi veröld. Það sýndist mér reyndar ekki aðrir vera heldur, m.a. þeir sem hér töluðu, þannig að það er rétt að menn fari varlega í þungum dómum. Það sem þó er ljóst er að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur rétt fyrir sér, við erum að tala um auðlind og þá hefur hver stjórnmálaflokkur, eða a.m.k. stjórnmálafylking eða hreyfing, sína auðlindastefnu. Auðlindastefna okkar samfylkingarmanna er ljós og hefur lengi verið það. Við viljum að auðlindir séu í almannaeigu, að af þeim sé tekið notkunargjald. Þó að í litlu sé er þeirri stefnu haldið fram í því frumvarpi sem hv. formaður samgöngunefndar mælti fyrir og er auðvitað til bráðabirgða þangað til nefndinni hefur gefist tími til að fara yfir frumvarpið frá hæstv. samgönguráðherra.