139. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[14:08]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessari löggjöf eru annars vegar settar brýnar uppgjörsreglur sem beðið er eftir og er nauðsynlegt að setja. Hins vegar er tekið á óvissu um gengistryggð íbúðalán sem er mjög brýnt að eyða. Fólkið í landinu á skilið að fá mjög skýr svör um hvaða reglur gilda um uppgjör lána þess og ekki þurfa að velkjast í vafa í allt að tvö ár um hvernig með þau verður farið. Það hefur enga þýðingu að bíða í einn mánuð í viðbót eða einn og hálfan. Það munu engin mál verða ráðin til lykta á þeim tíma sem létta af þinginu þörfinni á því að taka af skarið í þessu efni. Fólkið í landinu, fólk sem skuldar gengistryggð myntkörfulán á íbúðarhúsnæði sínu, þarf að fá að vita hvaða reglur eiga að gilda um þau og þingið verður að axla ábyrgð á því að upplýsa um það. Hér hefur löggjöfinni verið hagað með eins hógværum hætti og kostur er og henni markaður eins þröngur stakkur og mögulegt (Forseti hringir.) er til að tryggja að rétt sé með farið í hvívetna.