139. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2010.

þingfrestun.

[14:42]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna flytja forseta og öðrum varaforsetum bestu þakkir fyrir samstarfið á haustþinginu og hlý orð í okkar garð. Ekki síst vil ég þakka forseta fyrir samstarfið við okkur þingflokksformenn. Þrátt fyrir að tekist hafi verið á um þinghaldið á þessum fundum hefur andrúmsloftið verið vinsamlegt.

Við lifum á tímum umbreytinga og átaka. Við erum ekki öll sammála um hvert skal halda, hvernig best sé að byggja upp að nýju. Sá ágreiningur má aldrei bitna á þjóðinni. Það er skylda okkar þingmanna að endurvekja traust á Alþingi. Ég vil minna á orð Ghandis sem sagði að við yrðum að vera breytingin sem við vildum sjá. Við verðum að sýna að við höfum kjark til að fylgja hjartanu í störfum okkar og hafa réttlætið ætíð að leiðarljósi.

Að lokum vil ég færa forseta og fjölskyldu hans bestu kveðjur fyrir hönd okkar alþingismanna og starfsfólki Alþingis þakka ég einnig góð störf, lipurð og fúslega veitta aðstoð. Bið ég þingmenn að taka undir góðar kveðjur til forseta Alþingis og fjölskyldu hans og þakkir til starfsfólks Alþingis með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]