139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

kjarasamningar og endurskoðun fiskveiðistefnu.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að öllum sé ljóst að breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu verða meðal hinna stóru verkefna ríkisstjórnar og Alþingis á þessu ári. Ítarlegt samráð hefur farið fram, eins og hv. þingmaður nefndi, í nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra og þar hafa ýmsar leiðir verið ræddar, m.a. samningaleið. Tilboðsleið hefur líka verið rædd. (Gripið fram í.) Víst hefur tilboðsleið verið rædd, hún hefur vissulega verið rædd þar. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst að báðar leiðir, samningaleið og tilboðsleið, ganga í raun út á að aflaheimildir verði innkallaðar og endurúthlutað með tímabundnum nýtingarrétti gegn endurgjaldi. Það er kjarni málsins.

Þegar nefndin skilaði af sér var alveg ljóst að það ætti eftir að útfæra þessar leiðir. Ég sé það þegar ég les nendarálit ýmissa nefndarmanna að mjög mismunandi skilningur er lagður í þessa samningaleið. Viðfangsefnið núna er að útfæra þessa leið þar sem meginmarkmiðið og kjarnaatriðið er tímabundinn afnotaréttur sem ekki myndar eignarrétt. Að því er unnið á vegum stjórnarflokkanna undir forustu sjávarútvegsráðherra og ég vænti þess að frumvarp um það efni sjái dagsins ljós fljótlega í næsta mánuði og þá getur Alþingi tekist á við þetta stóra viðfangsefni.

Hitt vil ég nefna, af því að hv. þingmaður blandaði þessu saman við kjarasamninga, að ég tel ekki boðlegt að blanda saman og setja fram sem úrslitaatriði til að ná fram kjarasamningum að lausn fáist í fiskveiðistjórnarmálið. Það getur vel verið að komin verði lausn í það þegar kjarasamningar ná fram að ganga, sem vonandi verður sem fyrst, en að tengja þessi mál saman finnst mér algjörlega ófært og ólíðandi.