139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

sala á HS Orku.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum mánuðum hefur vinna undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra staðið yfir í samræmi við ályktun sem ríkisstjórnin gerði fyrr í sumar. Sú ályktun var tvíþætt, þ.e. að finna leiðir til þess að vinda ofan af Magmadæminu sem hv. þingmaður nefndi og svo að vinna að framtíðarskipulagi varðandi orkumál og eignarhald á orkufyrirtækjum. Nefndin mun skila af sér innan fárra daga.

Það eru vissulega til leiðir til að vinda ofan af þessu máli og það ræddum við í morgun með forsvarsmönnum stofnunarinnar. Þeir nefndu nokkrar leiðir eins og að málið færi fyrir dómstóla eða að eignarnám kæmi til. Við ræddum kostina og gallana á því. Ef til eignarnáms kemur velta menn því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegra í alla staði varðandi þá skaðabótakröfu sem gæti komið í kjölfarið að menn reyni samningaleiðina áður við forustumenn Magma. Það höfum við gert og var það m.a. í ályktun ríkisstjórnarinnar frá því í sumar að taka upp viðræður við Magmamenn um forkaupsrétt, kauprétt opinberra aðila á hlut í Magma, endurskoða samning um nýtingarrétt og ekki síst lengd leigutímans. Ég tel að í byrjun á þessu ferli þurfum við að skoða það mál og meta þá í kjölfar þess og þess lagafrumvarps sem verið er að vinna varðandi framtíðarskipan orkumála og eignarhalds á orkufyrirtækjum, sem við teljum að eigi að vera í opinberri eigu, hvort nauðsynlegt sé að fara eignarnámsleiðina sem ég ætla ekkert að útiloka.

Það eru ýmsar leiðir í þessu máli. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt fram hugmyndir, greinargerð og tillögur um heildstæða orkustefnu sem fer núna (Forseti hringir.) í samráðsferli. Við munum skoða það mál en lög um fyrirkomulag á leigu vatns- og jarðhitaréttinda eru líka undir í þessu efni og verður vonandi (Forseti hringir.) lagt fram frumvarp um það á þessu þingi.

Hv. þingmaður leggur líka fyrir mig fyrirspurnir um Vestia. Ég á miklu að svara á tveim mínútum (Forseti hringir.) en ég skal reyna það í síðara svari.