139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

sala á HS Orku.

[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka, út af orðum hv. þingmanns, að engin ákvörðun hefur verið tekin í því efni að fara í eignarnám eða (Gripið fram í.) reyna að ónýta þá samninga sem gerðir hafa verið. Ég var fyrst og fremst að tíunda fyrir Alþingi þá möguleika sem hugsanlega gætu verið fyrir hendi. Auðvitað er eðlilegt og rétt að reyna að ganga fyrst til samninga um að vinda ofan af þessu og opna fyrir möguleika á að opinberir aðilar geti komið að kaupum á hlut Magma í HS Orku og ekki síst að stytta þann nýtingartíma sem er fjarstæðulega langur, 65 ár, og hægt er að bæta við hann.

Varðandi Vestia er það mál í sviðsljósinu núna og það þarf auðvitað að skoða. Mikilvægt er að því er varðar söluna á Vestia til Framtakssjóðsins að það sé opið og gagnsætt ferli og jafnframt nauðsynlegt þegar Framtakssjóðurinn vinnur með þær eignir sem hann hefur núna (Forseti hringir.) undir höndum að það sé líka opið og gagnsætt ferli. Það á að vinna að málunum með þeim hætti að sú endurskipulagning sem þar verður hugsanlega farið í og sala á fyrirtækjum sé í opnu og gagnsæju ferli. (Forseti hringir.) Æskilegt væri og eðlilegt að þau fyrirtæki sem fara í sölu yrðu skráð í Kauphöllinni.