139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

útfærsla á 110%-leið í skuldamálum.

[15:21]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar eru orð efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Páls Árnasonar, sem höfð eru eftir honum á vef RÚV þann 15. janúar sl. Þau féllu í tilefni af samkomulagi um verklag við svokallaða 110%-leið sem nú er í höfn. Ég skil auðvitað ekki af hverju nokkur maður ætti að vilja borga 110% fyrir nokkra eign en í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„Árni Páll segir úrræðin nýtast þeim best sem hafa farið varlega í sínum fjármálum.“

Þetta er ekki rétt. Úrræði ríkisstjórnarinnar nýtast einmitt ekki þeim sem hafa farið varlega. Þau hjálpa ekki venjulegu fólki, millitekjufólki, sem hefur með eljusemi og sparnaði nurlað saman nægilegu fé til að kaupa íbúðarhúsnæði. Þessu fólki bauðst ekki 90% eða 100% lán, því stóð aldrei til boða að taka tugi milljóna að láni vegna húsnæðis. Margir eru að berjast í annað sinn núna fyrir því að halda sama kofanum, lentu kannski í álíka forsendubresti á óðaverðubólgutímum á árum áður. Þetta er fólk sem hefur ekki miklar tekjur, bara venjulegar tekjur og úrræði ríkisstjórnarinnar gera ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir það. Þetta er fólkið sem ríkisstjórnin ætlar að láta borga hrunið, ekki bara í gegnum bankakerfið heldur líka með því að hækka bensínverð, auka skattgreiðslur og almennar álögur. Skattahækkanir og auknar gjaldtökur ríkisstjórnarinnar hafa þegar hækkað skuldir heimilanna um 15,6 milljarða.

Þar sem ekki er alltaf haft allt rétt eftir í fréttum ætla ég að gefa ráðherranum færi á að leiðrétta orð sín.