139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

útfærsla á 110%-leið í skuldamálum.

[15:23]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Mér er bæði ljúft og skylt að staðfesta að rétt er eftir mér haft í þessari ágætu frétt. Spurt var um útfærslu á þeirri 110%-leið sem núna er búið að kynna og það sem ég var að vísa til er sú einfalda staðreynd að hún er þannig úr garði gerð að hún nýtist allra best þeim sem eru með hóflega yfirveðsetningu, þ.e. 4 millj. kr. og 7 millj. kr. niðurfelling sem stendur nú til boða hjá Íbúðalánasjóði og bönkunum án þess að tekið sé tillit til greiðslubyrði nýtist best þeim sem fóru varlega í fjármálum.

Til viðbótar þessu var í desember í fyrra búinn til þríþættur pakki, þetta er einn þáttur af honum, til þess að mæta eins og kostur er fólki í alvarlegum greiðslu- og skuldavanda. Einn þáttur var stóraukin niðurgreiðsla á vaxtabyrði sem kemur til framkvæmda nú á þessu ári og hinu næsta. Annar þáttur var mjög bætt sértæk skuldaaðlögun sem gerir fólki sem lendir í skuldavanda kleift að halda lánum sínum í skilum jafnvel þó að það ráði ekki við að standa undir afborgunum af þeim nema sem nemur 70% af verðmæti eignar. Allar þessar aðgerðir hafa það í för með sér að þær greiða leið venjulegs fólks sem hefur þurft að glíma við erfiðar afleiðingar hrunsins.

Það eru bæði gömul sannindi og ný og verða greinilega aldrei of oft endurtekin í þessum sal að hrun sem dynur yfir íslenskt samfélag verður aldrei bætt af öðrum en Íslendingum sjálfum. Það verður því miður aldrei hægt að koma málum öðruvísi fyrir en þannig að við berum afleiðingarnar af hruninu. Það er þess vegna sem við erum ósátt og það er þess vegna sem við viljum passa að slíkt hrun verði aldrei aftur. (Forseti hringir.)