139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

útfærsla á 110%-leið í skuldamálum.

[15:26]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst undarlegt að tala niður úrræði sem ætlað er að mæta fólki í raunverulegum vanda. Það er fjöldi ungs fólks, ungra fjölskyldna, sem keypti sína fyrstu íbúð á árunum, einu eða tveimur, fyrir hrun. Það fólk gerði ekkert annað af sér en taka 90% lán, eins og því stóð þá til boða, og stendur núna í yfirveðsettum eignum. Það er verkefni okkar að reyna að hjálpa þessu fólki og gefa því tækifæri til að sjá framtíð í því að búa hér á landi. Það er sú áhersla sem lögð er af hálfu ríkisstjórnarinnar með þessari 110%-leið. Útfærslan (Gripið fram í.) er beinlínis þannig hönnuð að greiða leiðina fyrir þetta fólk, ekki hjálpa þeim sem skuldsettu sig um tugi milljóna heldur mæta nákvæmlega því fólki sem er í raunverulegum vanda vegna þess að það gerði ekkert annað af sér en að kaupa sér íbúð a slæmum tíma. (Gripið fram í.)