139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

fréttir af breskum lögreglumanni og aðgerðasinna.

[15:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Fyrst hv. þingmaður nefnir Bandaríkjamenn til sögunnar ráðlegg ég honum líka að lesa aðra bók. Hún heitir The Legacy of Ashes, er hin opinbera ævisaga CIA og kom út á síðasta ári. (SKK: Hefur ráðherra ekkert annað að gera en lesa?) [Hlátur í þingsal.] Þar sér hv. þingmaður svart á hvítu hvernig erlend stórveldi vinna og þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það. Þá kæmi þetta honum ekki neitt á óvart.

Ég tek svo undir með honum að ég vona að þau samtök sem hann um langa hríð veitti forstöðu innan Samfylkingarinnar, Græna netið, séu ekki fórnarlamb rannsókna af þessu tagi. Hins vegar er nauðsynlegt að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því hvað hann er sjálfur að segja. Hann segir að við getum ekki leyft okkur að trúa því að þetta hafi gerst, en hann talar samt sem áður eins og hann trúi því. Við skulum bíða með viðbrögð þangað til niðurstaðan kemur frá íslenska innanríkisráðherranum, en þess má geta að bresk lögregluyfirvöld eru líka að (Forseti hringir.) rannsaka þetta og fyrir nokkrum vikum var ónýtt mál gegn þremur aðgerðasinnum í Nottinghamskíri einmitt vegna vinnubragða af þessu tagi.