139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

svar við fyrirspurn.

[15:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vekur hér athygli á er grafalvarlegt. Ég held að við þurfum nú að taka höndum saman, þingið. Við erum alltaf að tala um að efla þurfi þingið, að efla þurfi eftirlitshlutverk þess, að styrkja þurfi þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu, en við þurfum greinilega líka að styrkja þingið gagnvart ríkisstofnunum úti í bæ vegna þess að í svarinu sem hv. þingmaður fékk segir, með leyfi forseta:

„Fram kemur í svari NBI hf., nýja Landsbankans, að hann telji sér almennt ekki skylt að svara fyrirspurnum alþingismanna um önnur málefni en þau sem teljast opinber.“

Ég spyr: Hvernig í ósköpunum á þingheimur, þingmenn og Alþingi allt, að geta uppfyllt eftirlitsskyldu sína ef þetta eru svörin sem við þingmenn fáum þegar við erum að grafast fyrir um ýmis þau atriði sem okkur ber að hafa eftirlit með? (Forseti hringir.) Þetta sér hver heilvita maður að gengur ekki. Ég hvet hæstv. forseta til að beita sér í þessu máli og hjálpa okkur þingmönnum til þess að fá svör við slíkum spurningum.