139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

svar við fyrirspurn.

[15:54]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forseta viðbrögðin við þessari umræðu um að krefjast þess að málið verði tekið á dagskrá. Hér er ekki um einhverja venjulega fyrirspurn að ræða. Það voru kosningar vorið 2009 þar sem farið var af stað með það að nú ætti að endurreisa Ísland á öðrum forsendum, á nýjum grunni. Ég var í efnahags- og skattanefnd þegar lögin um Bankasýsluna voru sett. Þar var mjög skýrt ákvæði um að ráðherra sjálfur ætti ekki að skipta sér af starfsemi Bankasýslunnar eða bankans en það var vegna þess að menn gerðu sér vonir um að hér væri til staðar breyttur hugsunarháttur og breytt vinnubrögð fram undan. Það hefur aftur á móti ekkert breyst. Þar hefur Samfylkingin fyrst og fremst staðið í veginum og hér munu fjármálafyrirtækin áfram vera ríkjandi eins og ríki í ríkinu. Það gengur ekki að afhenda hér enn eina ferðina útvöldum gæðingum, einhverjum stórkapítalista eignir ríkisins því að þetta eru fyrirtæki sem eru í eigu ríkisins. Það er verið að afhenda þau með ógagnsæjum hætti. Þetta er skammarlegt (Forseti hringir.) og það er ekkert sem segir meira um stjórnarfarið á Íslandi en einmitt þetta að það hefur ekkert breyst (Forseti hringir.) með núverandi ríkisstjórn.