139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

dómstólar.

246. mál
[16:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, ég held að markmið okkar beggja og flestra ættu að vera hin sömu, að reyna að styrkja og efla dómstólana. Þetta mál er þess eðlis að um það ætti ekki að verða gríðarleg pólitísk deila. Þó eru þarna ýmis útfærsluatriði og breytingartillögur frá meiri hlutanum sem ég hygg að þurfi að skoða nánar og krefjist nánari umræðu og umfjöllunar hér í þinginu.

Ég kem væntanlega að því í ræðu minni hér á eftir en ég vildi koma á framfæri ábendingu til hv. þingmanns og formanns allsherjarnefndar um frumvarpið og þá helst gildistökuákvæði þess. Gert er ráð fyrir því að fjölgun héraðsdómara skuli gilda frá 1. mars 2011 og að hæstaréttardómarar verði tólf í stað níu frá 1. janúar 2011. Nú er sú dagsetning liðin og ég hygg að standi vilji þingsins til þess að gera frumvarpið að lögum þurfi að breyta lagatextanum hvað þetta varðar. Ég hygg að það væri skynsamlegt ef nefndin tæki þetta mál til umræðu milli 2. og 3. umr. til að fara yfir það hvaða dagsetningar og tímasetningar eru raunhæfar hvað varðar ráðningu eða skipan dómara bæði á héraðsdómsstiginu og sömuleiðis í Hæstarétti út af öllum þeim hæfis- og hæfnisumsögnum sem þurfa að berast áður en þetta mál er frágengið.