139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

dómstólar.

246. mál
[16:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. formanni allsherjarnefndar, Róberti Marshall, fyrir að taka vel í það að taka málið aftur inn til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég ætlaði að koma inn á það í ræðu minni, ekki síst vegna þess að málið var afgreitt í nokkru snatri í síðustu vikunni fyrir þinghlé í desember og ástæða er til að ræða frekar ýmsa þætti, ekki síst þá sem snúa að þeim breytingartillögum sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til í samræmi við tillögu sem barst frá Hæstarétti. Þær breytingar snerta, eins og sjá má, ekki meginefni frumvarpsins sjálfs heldur eru af öðru tagi og eru þess vegna þess virði að fá örlítið meiri sjálfstæða umfjöllun í nefndinni. Bara til að nefna það liggur auðvitað ekki fyrir hver afstaða annarra aðila sem hugsanlega hafa sérþekkingu, skoðanir eða hagsmuni í þessu sambandi á málinu kann að vera gagnvart breytingartillögum sem koma þá leiðina, sem koma upp í starfi nefndar, í þessu tilviki vegna þess að einn umsagnaraðili gerir tillögu um þær.

Ég tek annars undir með bæði hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og hv. þm. Róberti Marshall að mikilvægt er að bregðast við fyrirsjáanlegu auknu álagi á dómstólana. Ég minnist þess að bæði ég sjálfur og fjölmargir aðrir þingmenn höfum kallað eftir því um nokkurt skeið að til slíkra aðgerða yrði gripið. Það hefur verið ljóst um margra missira skeið að álag á dómstóla gæti vaxið, jafnvel verulega, vegna afleiðinga bankahrunsins, í formi einkamála, mála sem snúa að uppgjöri vegna gömlu bankanna, mála af ýmsu tagi. Þau geta snert þrotabúin sem slík, geta verið skaðabótamál gagnvart fyrrum stjórnendum eða stjórnarmönnum, margvísleg mál sem varða mikla hagsmuni, bæði einstaklingsbundna og almenna.

Svo er ekki síður um það að ræða að það er útlit fyrir að frá embætti sérstaks saksóknara muni berast einhver fjöldi mála. Við gerum okkur ekki grein fyrir því á þessu stigi hve mikið, en miðað við umfang þeirra rannsókna sem það embætti stendur að má ætla að um allnokkur mál verði að ræða. Jafnframt má ætla að verulega flókin og viðamikil mál komi til kasta embættisins. Það er rétt eins og kom fram í orðaskiptum þeirra hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og Róberts Marshalls áðan að það á að vera mjög góð samstaða um það og hefur ekki verið ágreiningur um það af hálfu okkar sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd að hér væri um að ræða ástand sem þyrfti að bregðast við með einhverjum aðgerðum til að efla dómstólana til að takast á við það brýna en vonandi tímabundna verkefni eða þau tímabundnu verkefni sem til þeirra koma vegna afleiðinga bankahrunsins.

Það er hins vegar ljóst að hægt er að fara ýmsar leiðir í því sambandi. Hér er lögð til leið sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lýsti réttilega sem nokkuð varanlegri breytingu til að bregðast við nokkuð tímabundnum vanda, þ.e. gert er ráð fyrir fjölgun sem festir tölu hæstaréttardómara og héraðsdómara til ársins 2013. Eftir árið 2013, þ.e. eftir tvö ár eða svo, á náttúruleg fækkun dómara eins og það er kallað að leiða til þess að smám saman verði fjöldi dómara sá sami og verið hefur til þessa. Í Hæstarétti hafa um allnokkurt skeið setið níu dómarar en eiga að verða 12 samkvæmt tillögunum sem hér liggja fyrir. Héraðsdómarar hafa verið 38, var fjölgað tímabundið fyrir rúmu ári upp í 43, en nú er gert ráð fyrir að fimm verði bætt við í viðbót þannig að fjöldinn verði 48. Hér er um verulega fjölgun að ræða og það mun taka allnokkurn tíma fyrir kerfið að ná aftur svipaðri stærð og áður var. Margt kann að breytast í millitíðinni. Það að festa töluna til 2013 og gera ráð fyrir að síðan muni náttúruleg fækkun, þ.e. þegar einstakir dómarar komast á aldur, leiðir til fækkunar á ný. Við förum nokkuð snöggt í breytinguna en síðan þynnast áhrif breytingarinnar nokkuð hægt út og það má velta fyrir sér hvort það sé rétt aðferðafræði.

Í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar er vikið að ástæðunum fyrir því að þessi leið er valin og vísað til meginsjónarmiða og stjórnarskrárreglna um sjálfstæði dómstóla. Til þessa hefur hins vegar ekki verið talið ótvírætt að tímabundnar skipanir í dómaraembætti, þ.e. að dómari sé settur til einhvers tiltekins tíma, vegi að sjálfstæði dómstóla. Algengt er að menn séu skipaðir varadómarar við Hæstarétt til að dæma í tilteknum málum og ekki hefur verið litið svo á að það vegi að sjálfstæði dómstólsins. Fleiri dæmi má tína til. Hitt er rétt að þegar fyrir líklega 20–25 árum var á borðinu tillaga um tímabundna fjölgun í Hæstarétti kom fram gagnrýni frá lögmönnum um að þar væri vegið að sjálfstæði réttarins með afskiptum framkvæmdarvaldsins, en ég hygg að þar hafi menn haft fullmiklar áhyggjur af áhrifum slíkrar tímabundinnar skipunar. Nóg um það.

Hér er lögð til ákveðin leið sem mun, eins og ég segi, hafa áhrif um allnokkurt árabil eftir efni frumvarpsins sjálfs. Ég vek athygli á því við þessa umræðu að margir umsagnaraðilar sem fjölluðu um frumvarpið vísuðu til þess að þeir kysu helst að þær breytingar sem er verið að fara út í núna fælust í því að komið yrði á fót sérstöku millidómstigi, þ.e. nýju dómstigi milli héraðsdóms og Hæstaréttar. Það yrði þá áfrýjunarstig þar sem unnt væri að áfrýja málum, bæði einkamálum og sakamálum, af héraðsdómstiginu en Hæstiréttur starfaði hins vegar áfram sem fordæmisgefandi æðsti dómstóll sem í sjálfu sér ætti fyrst og fremst að hafa með höndum að kveða upp fordæmisgefandi dóma í mikilsverðum málum sem varða almenna túlkun á lögum, eftir atvikum stjórnarskrárákvæðum, eða málum þar sem sérstaklega miklir hagsmunir eru í húfi að öðru leyti. Það hefði þann kost að í staðinn fyrir að flest mál, nema þau allra smæstu, gætu ratað til Hæstaréttar eins og kerfið er í dag væri sorterað dálítið út á þessu millidómstigi. Þar væri möguleiki á að hafa milliliðalausa málsmeðferð í sambandi við vitnaleiðslur og annað þess háttar sem gæti skipt sérstaklega máli í sakamálum.

Það væru ýmsir kostir við það og staða Hæstaréttar sem fordæmisdómstóls væri styrkt vegna þess að það fyrirkomulag sem við höfum búið við um nokkurt skeið sem gerir ráð fyrir að dómurinn starfi í fleiri en einni deild, þ.e. mismunandi dómarar sitji í mismunandi deildum, tekur svolítið frá okkur það mikilvæga hlutverk fordæmisdómstóls að allir dómarar taki þátt í málsmeðferð sem getur orðið til þess að skapa fordæmi. Ég vísa að öðru leyti til umsagnaraðila, bæði dómstólaráðs og Dómarafélags Íslands. Við fengum í hendur sameiginlega ályktun frá Dómarafélags Íslands, lögmannafélagi, lögfræðingafélagi og Ákærendafélagi Íslands þar sem talað var um þetta. Rökin eru öll þar fyrir hendi og ég tel að ef nefndin tekur þetta mál aftur inn á sitt borð milli 2. og 3. umr. væri a.m.k. einnar messu virði að bera saman kosti, t.d. í sambandi við kostnað af því að koma upp millidómstigi. Það er alveg ljóst að þær breytingar sem við leggjum hér til munu hvort sem er verða til þess að auka kostnað á þessu sviði og óþarfi að minna á að bæði við afgreiðslu fjárlaga nú í desember og fyrir ári voru dómsmálagjöld hækkuð verulega til að standa straum af auknum kostnaði hjá dómstólunum. Þess vegna verður að hafa það samhengi í huga þegar við veltum fyrir okkur kostnaði af nýju millidómstigi sem vissulega getur orðið umtalsverður, því skal ekki neitað.

Áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, vildi ég víkja örlítið efnislega að tillögum sem Hæstiréttur sendi allsherjarnefnd og meiri hluti allsherjarnefndar gerir að sínum, að mínu mati án þess að málið hafi fengið nægilega glögga skoðun í nefndinni. Þar eru þrjár tillögur sem hægt er að draga út, í fyrsta lagi tillaga um lengingu á kjörtímabili forseta Hæstaréttar, í annan stað heimild til að fleiri en sjö geti setið í dómi í sérstaklega mikilsverðum málum og í þriðja lagi heimildarákvæði um að rétturinn sjálfur geti ákveðið deildaskiptingu. Ég segi fyrir sjálfan mig að ég sé ekki ástæðu til að gera sérstakan ágreining um tvær síðari breytingarnar sem þarna er vísað til. Ég held að það geti verið tilefni til þess að fleiri en sjö sitji í dómi í sérstaklega mikilsverðum málum og set mig ekki upp á móti því að í lögunum verði ákvæði þar að lútandi samþykkt. Varðandi deildaskiptinguna held ég að tillagan um að rétturinn geti ákveðið að hann skiptist í deildir samkvæmt fastri almennri reglu, eins og það er orðað í tillögutextanum sjálfum, sé í lagi eins og staðan er. Mér finnst það hins vegar varpa ljósi á þann vanda sem við stöndum frammi fyrir þegar Hæstiréttur tekur ákvarðanir og kveður upp dóma í málum sem geta skapað fordæmi og geta verið gríðarlega mikilvæg vegna þess að deildaskipting getur leitt til þess að það fari hreinlega eftir því hverjir sitja í hvorri deild hvernig mál ráðast. Auðvitað þekkjum við að dómar Hæstaréttar eru mjög oft ákveðnir með meirihlutaatkvæði og minnihlutaatkvæði og það eru skiptar skoðanir meðal dómara. Deildaskipting réttarins sem slík er óæskileg í ljósi fordæmishlutverks réttarins. Þá bendi ég aftur á það sem ég sagði áðan, og umsagnaraðilar sögðu um frumvarpið, að millidómstig getur tekið frá okkur þann vanda.

Sú breyting sem lögð er til á frumvarpinu af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar og kemur að tillögu Hæstaréttar er um lengra kjörtímabil forseta réttarins. Kjörtímabilið er samkvæmt lögunum núna tvö ár og þar hefur lengi verið viðhöfð sú regla að forsetaembættið hefur gengið milli manna í réttinum í ágætu samkomulagi og ekki verið til neinna sérstakra vandræða. Ég verð satt að segja að játa að mér finnst algjörlega skorta á rökstuðning fyrir þessari breytingu. Hún var ekki í frumvarpi því sem lagt var fyrir á þingi og sent út til umsagnar, var ekki í tillögum starfshópsins sem vann á vegum ráðuneytisins á síðasta ári og var ekki í frumvarpi um breytingu á dómstólalögum sem lagt var fyrir þingið og fékk umfjöllun í fyrravetur þótt það yrði ekki að lögum. Ég verð að játa að bæði bréf Hæstaréttar þar sem tillagan er gerð og annar sá rökstuðningur sem hefur komið fram fyrir þessari breytingu finnst mér ófullnægjandi og hefur verið langt frá því að sannfæra mig um réttmæti þessarar breytingar. Þarna er um að ræða töluverða eðlisbreytingu á stöðu forseta Hæstaréttar, ég held að menn verði að átta sig á því. Eins og þetta er í dag er litið svo á að embætti forseta Hæstaréttar sé ákveðið verkefni sem jafnsettir hæstaréttardómarar skiptast á um að sinna. Þarna er með einhverjum hætti verið að breyta því og gefa því meira vægi eða sterkari stöðu — ég veit ekki hvernig á að túlka það — án þess endilega að það sé rökstutt sérstaklega. Ég get ekki fallist á að breyting af þessu tagi verði gerð öðruvísi en að hún fái betri umfjöllun á vegum þingsins, í allsherjarnefnd vona ég, og að fram komi skýrari röksemdafærsla fyrir því hvers vegna við eigum að hverfa frá því fyrirkomulagi sem verið hefur að þessu leyti.