139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

Lúganósamningurinn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.

234. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum frá allsherjarnefnd.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Guðlaugu Jónasdóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, eða innanríkisráðuneyti eins og það heitir nú.

Með frumvarpinu er lagt til að veitt verði heimild til að fullgilda Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem undirritaður var af hálfu íslenska ríkisins þann 30. október 2007. Samningurinn kemur í stað eldri Lúganósamnings sem undirritaður var 1988 og staðfestur með lögum nr. 68/1995.

Í nefndinni kom fram að helsta breytingin í nýjum samningi er að Evrópusambandið, sem stofnun, er nú aðili að samningnum í stað einstakra aðildarríkja áður og tekur samningurinn því til ellefu sambandsríkja til viðbótar sem ekki voru aðilar að samningnum frá 1988.

Með staðfestingu samningsins er stefnt að frekari samvinnu á sviði dómsmála í alþjóðlegum einkamálum og að treysta meginreglur eldri samnings um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma sem kveðnir eru upp í ríkjum annarra samningsaðila. Reglur er gilda um málsmeðferð eru skýrðar og ákveðin efnisatriði samningsins endurskoðuð í því skyni, þ.e. sem lúta einkum að reglum um varnarþing og lögsögu dómstóla yfir neytendasamningum, auk þess sem gerðar eru breytingar á sviðum er snúa að sérstakri lögsögu í félagarétti, sameiningu skyldra dómstóla og málum er varða fullnustu dóma í öðru landi.

Nefndin fjallaði sérstaklega um gildissvið samningsins en hann gildir einungis á sviði einkamála, þar á meðal verslunarmála. Opinber mál falla ekki undir samninginn né heldur skattamál, tollamál eða stjórnsýslumál. Þá eru undanskilin mál er varða persónulega réttarstöðu manna, rétthæfi, gerhæfi, svo og fjárhagsleg réttindi sem eiga rætur að rekja til hjúskapar eða erfða. Þá falla forsjármál ekki undir samninginn.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Hv. þm. Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir það rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Atli Gíslason, Mörður Árnason, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Sigurður Kári Kristjánsson og Þráinn Bertelsson.