139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil segja það að ég harma að hæstv. innanríkisráðherra skuli ekki vera viðstaddur. Þetta er mál sem kemur honum allmikið við, það hefði verið betra að hann hefði verið í salnum við þetta mál og reyndar kannski þau tvö fyrri sem hér voru rædd. Það voru að vísu mál í 2. umr. Ég veit að aðstæður ráðherrans eru þannig þessa daga að hjarta okkar slær með honum og fjölskyldu hans, mér dettur ekki í hug að krefjast þess að hann verði sóttur eða í hann kallað.

Staðan er þessi, forseti. Hér er frumvarp sem átta þingmenn flytja. Fjórir þeirra eru staddir í salnum. Þetta er ekki stjórnarfrumvarp. Hæstv. innanríkisráðherra flytur málið ekki en hann á ákveðinn þátt í því eins og athygli hefur verið vakin á. Með einhverjum hætti er frumvarpið bæði á vegum átta allsherjarnefndarmanna og innanríkisráðherra sem nú situr. Líka hefur verið rakið að þetta er hluti af frumvarpi til breytinga á lögreglulögum frá fyrra þingi sem dagaði þá uppi í allsherjarnefnd. Rétt er að fram komi að ég hef starfað í nefndinni frá því í júní á síðasta ári og var þess vegna ekki með í umfjöllun um málið og veit ekki mikið um það. Það var að vísu á dagskrá nokkrum sinnum á nokkrum fundum en ekki rætt til hlítar. Ég hafði ekki tækifæri til að setja mig inn í það.

Málið var ekki tekið upp í haust, hvorki í undirbúningi fyrir septemberþingið né síðar. Að vísu verður að geta þess að endurflutningur gamla frumvarpsins var boðaður í málaskrá með stefnuræðu forsætisráðherra en síðan urðu ráðherraskipti hygg ég, eftir það. Það fyrsta sem ég frétti af því máli sem hér liggur fyrir var á næstsíðasta degi þingsins eða þriðja síðasta degi þingsins sem stóð fyrir áramót og var slitið 18. desember að ég held. Þetta mun hafa verið 16. eða 17. desember, þann 16. hallast ég að. Þá voru frumvarpsdrögin sýnd á fundi í allsherjarnefnd, hraðfundi sem var haldinn í hliðarherbergi við salinn, óvenjulegum fundi. Nefndarmenn voru beðnir að setja nöfn sín á drögin og það gerðu átta nefndarmenn daginn eftir en ekki ég. Það stendur því upp á mig að skýra sérstaklega af hverju ég er ekki á lista flutningsmanna og ég skal gera það. Ég skal gera það, forseti, þrátt fyrir ýmis augntillit sem ég hef fengið á þessum fundum og ég þykist skynja í fjölmiðlum.

Mínar ástæður voru þessar:

Í fyrsta lagi. Ég er nýr í nefndinni. Ég þekkti ekki málið. Ég þekkti ekki umræður um það á fundum nefndarinnar á 138. löggjafarþingi í fyrra. Æskilegt væri að flutningsmenn þeir sem hér eru staddir og voru í allsherjarnefnd á síðasta þingi upplýsi um hvað fram kom í umsögnum um málið og hverjar umræður urðu um það við gesti því það skiptir máli. Ég leit hins vegar á 1. umr. um málið í apríl í fyrra. Þá var ekkert minnst á Lögregluskólann nema í framsöguræðu ráðherra sem var auðvitað samhljóða greinargerðinni eins og oft er um þessa hluti. Kann að vera að eitthvað sem ég veit ekki um hafi komið fram í störfum nefndarinnar.

Í öðru lagi hef ég efasemdir um ástæðurnar sem fram voru fluttar um flutninginn þennan dag í desember. Þær voru einna helst að með því að allsherjarnefnd flytti málið fengi það þá blessun þingsins að nemendur og kennarar gætu fremur reitt sig á að skólinn yrði haldinn eins og ætlað var í febrúar. Ég taldi eðlilegra og sagði það strax, að ráðherra málaflokksins legði málið fram og gæfi þau fyrirheit sem hann vildi gefa og kæmi þar með hlutunum á sínu sviði framkvæmdarvaldsins í það lag sem til heilla horfir.

Ég spyr flutningsmenn og ráðherrann fjarstaddan um skýringar á þessu. Af hverju var málið ekki komið fram á þeim tíma sem dugað hefði? Af hverju, forseti? Það er eðlilegt að skýra það hér hreinskilningslega. Þegar ákvörðun var tekin um að flytja lagafrumvarpið ekki aftur óbreytt á haustþinginu, gleymdist þá Lögregluskólinn? Var það þannig? Lá hann í gleymskunnar dái í dómsmálaráðuneytinu allan októbermánuð og allan nóvembermánuð og alla þessa 15 daga í desember? Er það þannig? Það er ótrúlegt og ólíklegt. En hvaða ástæður aðrar voru það þá sem ollu því að frumvarpsdrögin sáust fyrst í Alþingishúsinu í síðari hluta síðustu þingviku, annaðhvort 16. eða 17. desember? Forseti, ég tel að flutningsmenn eigi að gera þingheimi grein fyrir þessu.

Í þriðja lagi þykja mér upplýsingar um ýmsa mikilsverða þætti málsins ófullnægjandi. Þær snúa bæði að nemendum skólans og fjárhag ríkisins, stöðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna og formlegri stöðu lögreglunnar. Ég kem að þessu síðar í ræðunni eða í næstu ræðu.

Í fjórða lagi hef ég áleitnar efasemdir um gang mála í samstarfi framkvæmdar- og löggjafarvalds sem saga frumvarpsins virðist sýna. Það er auðvitað sjálfsagt að þingmenn flytji mál á þinginu, annað hvort væri nú. Hér er hins vegar ekki um það að ræða heldur var óskað eftir því að öll nefndin flytti málið. Hv. formaður allsherjarnefndar óskaði eftir því að öll nefndin flytti málið. Það má telja líklegt og kom reyndar fram ef ég heyrði rétt, að hæstv. ráðherra hafi hvatt til þessa. Þá spyr maður: Af hverju ekki ráðherrann sjálfur? Það þurfa flutningsmenn að skýra eða ráðherrann sem ekki er viðstaddur, eða hvorir tveggja. Af hverju flutti ráðherra sjálfur ekki málið?

Það er auðvitað galli við frumvarp af þessu tagi, þingmannafrumvarp sem flutt er af átta mönnum af níu í nefnd, að það fær ekki þann undirbúning sem hefðbundið stjórnarfrumvarp hefði fengið. Það er í fyrsta lagi ekki samþykkt í ríkisstjórn. Í öðru lagi er það ekki skoðað á fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Engin umsögn kemur með því þaðan inn á þingið. Í þriðja lagi fer það ekki í gegnum nálarauga nýstofnaðrar lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins sem á einmitt að fara í gegnum svona hluti og undirbúa vandaða greinargerð með stjórnarfrumvörpum. Í fjórða lagi nýtur málið ekki þeirrar athugunar og jákvæðu gagnrýni sem önnur mál gera frá ráðherrum og ríkisstjórn í þingflokkum stjórnarliða. Svo má kannski segja í fimmta lagi, sem ég heyrði á göngunum, að vegna þess að málið er þingmannamál verður það væntanlega talið þinginu til sérstaks ágóða og hróss að lokum þegar talin eru upp mál eftir málaflokkum. Þó vita allir, a.m.k. þeir sem staddir eru hér í salnum, að svo háttar alls ekki til. Það er þinginu ekki til neins sérstaks vegsauka að málið sé flutt með þessum hætti.

Þegar þingmenn og áhugamenn utan þings taka afstöðu til stjórnarfrumvarps eru allir þessir undirbúningsþættir fyrir hendi. Það færist reyndar í vöxt að frumvarpsgerð af hálfu ráðherra úr ráðuneytum fari fram áður en þingið hefur afskipti af henni, með ýmis konar umsögnum og umræðu sem enn bætir málið. Svo er held ég ekki um þetta frumvarp.

Nú má hreyfa þeim mótbárum að þetta sé einungis hluti af stjórnarfrumvarpi frá í fyrra og málið hafi þá fengið þessa meðferð. Þá spyr maður auðvitað: Af hverju var þessi hluti málsins ekki samþykktur þá? Hvernig stóð á því að allsherjarnefnd tók ekki þennan part út úr? Mæltu ráðherrann eða starfsmenn ráðuneytisins eða lögregluskólastjórinn ekki með því þá að sú leið yrði farin?

Því má bæta við að í ljós kemur þegar frumvarpið er flutt og maður ber það saman við gamla frumvarpið og skoðar sögu þess að ákvæðunum hefur verið breytt nokkuð frá því sem lagt var til í gamla frumvarpinu. Þetta stendur í greinargerðinni og hefði verið full ástæða til að fara yfir þetta svo málið mætti einmitt ganga í gegnum þann feril sem ég ræddi áðan og við höfum sett stjórnarfrumvörpum, að þessi partur færi aftur í gegnum þá síu þar sem gætt er að formlegum, fjárhagslegum og pólitískum hliðum.

Ég bið hv. flutningsmenn, af því hæstv. ráðherra er ekki hér staddur, að svara því hér á eftir hvort ekki hefði verið heppilegra að nefndin hefði annaðhvort sjálf flutt þennan part af frumvarpinu á fyrra þingi eða að ráðherrann flytti þetta sjálfur. Ég spyr flutningsmenn hver ágóði eða bót sé að þeirra mati í því að við getum ekki stuðst við þann undirbúning sem stjórnarfrumvörp alla jafna fá við þessar aðstæður, sérstaklega vegna þess að hér liggur á. Ekki er ætlast til að þingið eða nefndin taki sér langan tíma í umfjöllun eða umræður um málið. Það hefur komið fram í umræðunum og þetta segja fleiri. Ég hef tekið eftir tveimur fréttum um málið í dagblöðunum, í Fréttablaðinu 23. desember og Morgunblaðinu 5. janúar. Í þeim fréttum segir að nú standi aldeilis upp á Alþingi og Alþingi verði að skammast til að láta hendur standa fram úr ermum. Ef það geri það ekki þá eyðileggi það námsmöguleika lögreglumanna og lögreglunema og skilji málið eftir í klúðri. Í Fréttablaðinu 23. desember var fyrirsögnin, með leyfi forseta:

„Nemar teknir inn í Lögregluskólann en laun meðan á námi stendur felld niður: Háðir því að þingmenn breyti lögum.“

Þetta stendur í Fréttablaðinu á Þorláksmessu. Þar kemur í ljós að 20 nemendur ætla að hefja nám í byrjun febrúar en til að svo megi verða, segir Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskólans, með leyfi forseta:

„þarf Alþingi að samþykkja frumvarp um breytingar á náminu eftir að þingmenn koma úr jólafríi um miðjan janúar.“

Þarna sést sumsé að loksins þegar þingmenn eru búnir að vera í jólafríi hálfan desember og hálfan janúar á að fara að gera eitthvað, meðan nemendurnir bíða eftir því sem lögreglustjórinn og höfundar greinargerðarinnar kalla hagræði, þ.e. að þeir taki námslán á síðustu önninni í staðinn fyrir að fá kaup.

Í Morgunblaðinu er fyrirsögnin þessi, með leyfi forseta:

„Alþingi verður að afgreiða frumvarp svo námið hefjist“.

Þar segir reyndar að undirbúningur að skólaupphafinu hafi hafist strax í haust af því að tekið var fram á umsóknarblaði að breytingar væru fyrirhugaðar á lögreglulögunum. Menn hafa sumsé vitað að frumvarpið flutt yrði þá. Hvaðan þær heimildir eru veit ég ekki. Svo segir frá frumvarpinu frá í fyrra og síðan segir, með leyfi forseta:

„Þegar svo ljóst varð að núverandi dómsmálaráðherra ætlaði ekki að mæla fyrir sama frumvarpi aftur fyrir jól var farið fram á að ákvæðið sem lýtur að Lögregluskólanum yrði tekið út úr frumvarpinu og flutt sér. Varð úr að átta þingmenn úr allsherjarnefnd standa að baki frumvarpinu.“

Þannig er fréttin í Morgunblaðinu. Arnar Guðmundsson skólastjóri segir í blaðinu að í Lögregluskólanum búi menn sig undir að frumvarpið verði afgreitt með hraði og þeir vænti þess að svo verði.

Í samtali við Róbert Marshall, hv. formann allsherjarnefndar, kemur reyndar fram að hér sé ekkert að óttast þar sem megnið — það stendur megnið — af allsherjarnefnd standi að frumvarpinu. Í blaðinu segir Róbert reyndar líka að mælt hafi verið fyrir frumvarpinu fyrir jól og þess vegna verði umsagnarfrestur runninn út þegar þing kemur saman 17. janúar. Þar virðist um ofurlítinn misskilning að ræða, sem hlýtur að liggja hjá blaðamanni.

Þetta eru ágætar fréttir og lýsa lofsverðum áhuga á því að Lögregluskólinn komist í gang eins og fyrirhugað var. Ég verð þó að viðurkenna að mér finnst þetta ekki viðkunnanlegur tónn í fréttaflutningi dagblaðanna og skólastjórans í garð þingsins sem ekkert hefur til saka unnið annað en að hafa ekki klárað lögreglulagabálkinn frá því í fyrravor. Svo er auðvitað hinn sérstaki sakamaður, sá sem hér stendur, sem tók ekki algerlega gagnrýnislausan þátt í fögnuðinum í hliðarherberginu 16. desember.

Ég verð að segja, forseti, að heildartilfinning mín gagnvart þessu er sú að í þessu máli, sem fréttaflutningurinn lýsir kannski, séu samskipti skólans og ráðuneytisins, sem er skrifstofa ráðherra og Alþingis, ekki hæfileg — ekki hæfileg.

Forseti. Ég hef lokið tíma mínum. Þess vegna get ég ekki farið í þá efnisþætti sem ég ræddi áðan. Mér sýnist að fleiri ætli að taka þátt í umræðunni og fer því í aðra ræðu á eftir. Ég bið flutningsmenn að hæstv. ráðherra fjarstöddum að svara þeim spurningum sem ræða mín hefur gert þeim að svara.