139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það voru gerð einhver mistök í innanríkisráðuneytinu, eða dómsmálaráðuneytinu eins og það hét, í fyrrahaust sem urðu til þess að þetta mál dróst og var ekki leyst úr því. Það er komið með málið til allsherjarnefndar sem ákveður að bregðast við með þeim hætti sem hér var lýst áðan. Það er ekkert launungarmál að þetta mál var unnið af dómsmálaráðuneytinu, það lagt til kynningar til þingmanna og þeir beðnir um að bregðast við svo handfylli manna eða rúmlega það, 20 manns, geti skipulagt nám sitt og líf á komandi ári.

Mikill meiri hluti hv. allsherjarnefndar er tilbúinn til að greiða götu þessa fólks og lagfæra þau mistök sem gerð hafa verið. Ég kann ekki nákvæmlega skýringu á því og get ekki upplýst hv. þingmann um hvernig á því stendur. Það var líka liður í því að liðka fyrir þingstörfum og semja um þinglok fyrir jól að þetta mál yrði leitt til lykta með þeim hætti sem gert var.

Það var misminni mitt í samtali við blaðamann Morgunblaðsins að málið hefði verið lagt fram. Mér varð það reyndar ekki ljóst fyrr en akkúrat undir ræðu hv. þingmanns áðan að ég hefði farið rangt með en það leiðréttist hér með. Manni getur orðið á handvömm eins og kom fyrir í innanríkisráðuneytinu. Hins vegar er formalismi hv. þingmanns vel metinn og það er mjög hollt fyrir mig persónulega að fá upprifjun á því hvernig var fyrir tíu árum eða rúmlega það að vera meðlimur í þeim ágæta flokki Alþýðubandalaginu.