139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:31]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég man ekki eftir að málefni Lögregluskólans hafi komið til umræðu í Alþýðubandalaginu en þó getur vel verið að það hafi blandast inn í miklar deilur sem þar urðu, ekki um formalisma heldur um inntak, um pólitík. Það sem háði þeim flokki var að þar áttu allir að vera svo yndislega sammála og ánægðir með sjálfa sig og byltinguna að ekki var gert ráð fyrir að það þyrfti neitt form, svo sem til að afgreiða mál.

Það hefur þó gerst í þessari umræðu að hv. formaður allsherjarnefndar hefur látið í ljósi þá skoðun að þetta hljóti að hafa verið mistök í dómsmálaráðuneytinu. Eins og ég segi hefði verið nær að hæstv. ráðherra svaraði því sjálfur. Þetta eru sérkennileg mistök og kannski er ekkert við þeim að segja. Ég var þegar búinn að leiðrétta þessi lítt alvarlegu mistök í Fréttablaðinu þó að ég gæti ekki stillt mig um að minnast á það því að þetta kom svolítið á óvart. Ég þurfti að gá sjálfur, af því að ég er svo mikill formalisti, hvort mælt hefði verið fyrir málinu vegna þess að það hefði auðvitað breytt því aðeins. Það sem hv. formaður allsherjarnefndar þarf að vera alveg klár á er þetta: Af hverju taldi hann sjálfur betri leið að átta af níu allsherjarnefndarmönnum flyttu málið en ráðherrann sjálfur? Þetta er dæmigert mál sem ráðherra flytur. Var það vegna þess að mistökin voru þá orðin slík að ekki var tími til að fara í þennan fjórfalda farveg? Var ekki tími til að leggja þetta fyrir ríkisstjórnina, ekki tími til að fara á lagaskrifstofuna, ekki tími til að fara á fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og ekki tími til að láta það fara í gegnum þingflokka stjórnarinnar? Ef það er þannig er þetta mál að verða svolítið sérkennilegt (Forseti hringir.) og þingið þyrfti kannski að rannsaka nánar hvernig stendur á því að mál klúðrast svona illa.