139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[18:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er málvenja á Íslandi að tala um skrifuð og óskrifuð lög og ég ætla svo sem ekkert að krefjast þess að menn leyfi mér að nota íslenska málvenju að þessu leyti.

Í fyrsta lagi vil ég hins vegar segja hvað varðar athugasemd hv. þm. Péturs H. Blöndals að þau ákvæði sem hér er verið að tala um varða einmitt ekki lítil fyrirtæki, þau varða stór fyrirtæki. Þetta varðar samráð stórra fyrirtækja á markaði. (Gripið fram í: … samráð …) Ég þakka þingmönnum fyrir það, ég held að þetta sé einmitt það sem hefur hjálpað mjög þjóðmálaumræðu hér á landi að fólk notar orð sem — og ég biðst afsökunar á því, auðvitað átti ég ekki að nota orðið „samráð“ en ég get notað samtöl, ég get notað þegjandi samkomulag. Ég segi það beint frá hjartanu að mér finnst gæta hér óskaplega sakleysislegs hugsunarháttar í hugum manna ef þeir hafa ekki hugmyndaflug í það að stór fyrirtæki á Íslandi rétt eins og annars staðar, stór ráðandi fyrirtæki geti ekki freistast til þess að vera með þegjandi samkomulag um eitt og annað.