139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í gær voru hæstv. forsætisráðherra afhentar undirskriftir frá 48 þús. Íslendingum sem gera kröfu um að komið verði í veg fyrir söluna á orkufyrirtækinu HS Orku og einnig er áskorun í því fólgin að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum. Þetta barst í tal í fyrirspurnatíma í gær þar sem hæstv. forsætisráðherra svaraði því til aðspurð að hún útilokaði ekki að gripið yrði til eignarnáms hvað þetta varðar og það þrátt fyrir að nefnd, tvær frekar en ein, á vegum hæstv. forsætisráðherra hafi úrskurðað að kaup þessi væru lögmæt og í rauninni ekki lagagrundvöllur fyrir eignarnámshugmyndum, a.m.k. ekki nema með miklum áhrifum á ríkissjóð sem við fáum oft og ítrekað að heyra frá hæstv. ríkisstjórn að standi ekki nógu vel þegar ýmis mál eru rædd.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram, varaformann viðskiptanefndar og nefndarmann í iðnaðarnefnd, hvernig honum hugnist þessar eignarnámshugmyndir hæstv. forsætisráðherra, hvaða áhrif hann telji að svona yfirlýsingar hafi á erlendar fjárfestingar hingað til lands eða jafnvel innlendar fjárfestingar í orkufyrirtækjum. Mig langar til að vita hvort hv. þingmaður telji að þau áhrif á ríkissjóð sem fram komu í fréttum í hádeginu, allt að 33 milljörðum kr., séu nokkuð sem hann telji ríkissjóð hafa bolmagn til að fara í núna. Einnig spyr ég hvort hann geti ekki staðfest þann skilning minn, eftir (Forseti hringir.) lagasetningu árið 2008 sem flokkar þingmannsins og þeirrar sem hér stendur stóðu að, að auðlindir í eigu opinberra aðila verði það áfram vegna þeirrar ágætu lagasetningar sem við (Forseti hringir.) stóðum saman að.