139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að forsætisráðherra hafi í gær verið að árétta það að samkvæmt nefnd um orku- og auðlindamál sem skipuð var til að fjalla um HS Orku séu tvær leiðir færar ef við viljum breyta eignarhaldi á HS Orku, annars vegar að leita samninga um málið og hins vegar að setja lög um eignarnám. Ég heyrði ekki betur en að forsætisráðherra væri áhugasamari um samningaleiðina enda tel ég hana miklu hyggilegri.

Mín skoðun er hins vegar sú að það sé alls ekki sjálfgefið að nýting auðlindanna sé undir stjórn hins opinbera, ekki frekar en ég tel að nýting sjávarauðlinda eigi að vera á vegum hins opinbera. Ekki vil ég sjá útgerðarfélög ríkisins. Ég tel samt ekki skynsamlegt að við höfum áhyggjur af því hvort ríkið eigi pípurnar eða hverflana. Miklu betra er fyrir okkur að tryggja almannahagsmuni með því að skoða lengd nýtingartímans í fyrsta lagi og í öðru lagi að skoða hvað við fáum í arð af nýtingu auðlindanna.

Við tryggjum nefnilega hvorki með eignarhaldi orkuvinnslunnar einu og sér að arðurinn af auðlindunum renni til þjóðarinnar né getum við tryggt að orkunýting af stefnunni með almannahagsmuni í huga sé þar undir. Þá er líka ósvarað þeirri spurningu hvort æskilegt sé að skatt- og útsvarsgreiðendur eigi að bera áhættu vegna fjárfestinga í orkuvinnslunni fyrir stöku stóriðjuverkefni.

Þess vegna segi ég, og það er mín skoðun, að lykilatriðin séu tvö í þessu máli. Annars vegar eigum við að skoða hvort við fáum sanngjarnan arð af nýtingu auðlindanna og hins vegar lengd nýtingartímans. Það sama á þá við ef við nýtum jarðhita, vatnsföll eða fiskinn í sjónum.