139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið nokkur umræða um Vestia-samningana að undanförnu af góðri og gildri ástæðu og ég hef áhuga á að fá sjónarmið hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, varaformanns viðskiptanefndar, á ákveðnum þáttum þess máls sem hafa ekki verið mikið í umræðunni. Ég held að svar frá hæstv. fjármálaráðherra í gær hafi komið öllum á óvart, svar við spurningu um kaupverð þeirra félaga sem voru seld úr Vestia, eignarhaldsfélagi Landsbankans, yfir í Framtakssjóðinn. Svarið var einfaldlega að ekki ætti að upplýsa um söluverðið.

Það sem ég hef áhuga á að fá að vita hjá hv. þingmanni sem hefur látið sig málið varða er hvort hann telji réttlætanlegt að upplýsa ekki um söluverðið hjá þessum stórfyrirtækjum. Hér er um einkavæðingu að ræða og það er alveg ljóst að við munum því miður sjá meira af þessu á næstunni vegna þess að ríkisbankinn mun örugglega fá fleiri fyrirtæki upp í hendurnar. Umræðan um einkavæðingu hefur aðallega verið um fortíðina en nú er ég að spyrja um nútíðina og framtíðina og þá væri gott að fá sjónarmið hv. þingmanns.

Einhverra hluta vegna hefur verið nokkur misskilningur í umræðunni og hann hefur falist í því að stjórnarliðar hafa jafnvel haldið því fram að það regluverk sem þeir sjálfir bjuggu til geri það að verkum að fjármálaráðherra geti ekki komið skoðunum sínum á framfæri til Bankasýslunnar en eins og menn vita stendur í 2. gr. laganna um Bankasýsluna, með leyfi forseta: (Forseti hringir.)

„Ákveði fjármálaráðherra í undantekningartilvikum að beina tilmælum til stjórnar stofnunarinnar um tiltekin mál getur stjórnin tjáð ráðherra afstöðu sína til þeirra áður en við þeim er orðið.“ (Forseti hringir.)

Það er hreinlega gert ráð fyrir því, t.d. í tilfellum eins og við höfum verið að ræða núna, að ráðherra geti komið tilmælum áleiðis og þá er það (Forseti hringir.) bara spurningin, virðulegi forseti: Telur þingmaðurinn að ráðherra eigi að (Forseti hringir.) standa við orð sín?