139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér kemur hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum og biður um ríkisrekna starfavæðingu, ég veit eiginlega ekki hvað ég á að kalla þetta. Hér koma sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og hvað þeir nú allir heita og vilja að ríkisstjórnin skapi störfin, væntanlega með stóriðju eða einhverjum einföldum heildarlausnum.

Það er ósköp einfaldlega þannig að framkvæmdarvaldið í landinu, hvort sem það er ríkisstjórn eða sveitarfélög, skapar aðstæður til þess að byggja upp atvinnu. Varla þarf ég að segja vinum mínum, hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, frá þessu þó að ég viti að framsóknarmenn séu ekki alltaf með þetta alveg á hreinu. (Gripið fram í.) Það er þannig sem það er, og hvernig er það gert? Það er gert með efnahagsstjórn og með því að búa til aðstæður með lágum vöxtum, (Gripið fram í: … skapað …) með góðri skattstefnu og lágri verðbólgu — en hvað vantar, frú forseti? Jú, það vantar m.a. gjaldmiðil sem hægt er að nota, (Gripið fram í: Æi.) sem er ekki í gjaldeyrishöftum og dugar okkur til langrar framtíðar, það er grundvallaratriði, og svo vantar líka erlenda fjárfestingu í allar tegundir atvinnustarfsemi.

Hvernig skyldum við gera það, frú forseti? Það gerum við m.a. með því að opna augu okkar fyrir því að þá þurfum við að tala um erlenda fjárfestingu á öllum sviðum atvinnulífsins en ekki bara sumum. Þegar stjórnarandstæðingar verða færir um það getum við kannski tekið alvöruumræðu um efnahagsstjórn og atvinnumál hér á landi. (Gripið fram í.)