139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[14:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var þá ekki að hugsa um olíu. Eitt af þeim sviðum sem ég tel að við, þessar þrjár þjóðir, gætum unnið saman á varðar endurnýjanlega orku. Þegar ég var iðnaðarráðherra var af hálfu Orkustofnunar unnin áætlun um möguleikana á því að sjá Færeyingum fyrir hreinni raforku um streng til Færeyja. Reiknuð var út hagkvæmni þess að leggja þangað streng sem gæti þar með dregið stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá olíubrennslu sem Færeyjar eru að hluta til háðar í dag þótt það sé furðulega hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku sem þeir geta aflað sér úr vindi og vatni.

Hagkvæmni þess og verðlagning til Færeyinga yrði snöggtum hagstæðari ef orkuflutningur til Færeyja væri hluti af orkusölu um streng til Evrópu þar sem verð á endurnýjanlegri orku er afar hátt í Evrópu. Við Íslendingar erum hins vegar ekki aflögufærir en — frú forseti, það voru tvær mínútur hérna á klukkunni áðan.

(Forseti (ÞBack): Það voru því miður mistök.)

Fæ ég ekki að njóta þeirra því að ég verð annars að ljúka svari mínu án þess að hafa komið að kjarna málsins?

(Forseti (ÞBack): Hæstv. utanríkisráðherra verður að komast að kjarna málsins síðar.) (Gripið fram í: Það er … nýtt.)