139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að hæstv. ráðherra lítur svo á að þjóðin ráði því hvort farið verður inn í Evrópusambandið eða ekki.

Það vill þannig til að ESB hefur ekki áheyrnarfulltrúa eða beina aðkomu að þeim mikilvægu hagsmunum sem eru þarna í húfi. Þar sem hæstv. utanríkisráðherra er nokkuð fyrir það að snúa út úr spurningum spyr ég hann á ný: Eru Íslendingar og þá ráðuneyti hans, utanríkisráðuneytið sem fer með utanríkismál fyrir hönd þjóðarinnar, undir mikilli pressu um að sú leið verði farin að koma þjóðinni inn í Evrópusambandið? Vissulega er Ísland lykillinn að þessum miklu auðlindum í Norðurhöfum og þeim gæðum sem þar eru ófundin og fundin.

Því spyr ég á ný: Hversu mikla áherslu leggur Evrópusambandið á að Ísland gangi í Evrópusambandið? Evrópusambandið (Forseti hringir.) hefur ekki aðgang að þessum ræðustól en ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er í góðu og miklu sambandi við Brussel.