139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef eitthvað aðeins komið þessu öfugt út úr mér hér áðan, ég vildi fá skoðun hæstv. ráðherra á samskiptum okkar Íslendinga við Norðmenn. Mér fannst Norðmenn einmitt frekar slá sér upp með Rússum en á móti. Það var ekki hökt þar á milli heldur kannski frekar okkar á milli. Ég vil gjarnan fá afstöðu hæstv. ráðherra varðandi það mál en um leið undirstrika ég að það sem skiptir máli í þessu er að rödd okkar Íslendinga verði skýr og að við sýnum samstöðu frá þinginu.

Ég var algjörlega ósammála þeirri nálgun Bandaríkjamanna þegar þeir drógu herinn frá Íslandi á sínum tíma að það væri vegna minnkandi vægis öryggishagsmuna. Síður en svo, við vitum það, og mig minnir að hæstv. utanríkisráðherra hafi verið á þeim fundi þegar fyrrum yfirhershöfðingi NATO, Klaus Neumann, kom hingað og sagði: Það eru aðrar ógnir sem steðja núna að heiminum, m.a. öryggishagsmunir sem tengjast umhverfismálum, loftslagsbreytingum, tölvumálum, netheimum o.s.frv. Ég held að það undirstriki einmitt (Forseti hringir.) það að við þurfum að vera á tánum varðandi aukið vægi auðlindanýtingar og loftslagsbreytinga sem (Forseti hringir.) mun ýta undir vægi norðurskauts og norðurslóða, þar með Norðurskautsráðs.