139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu sem ég lýsi hér með stuðningi mínum við í öllum meginatriðum. Ég tel mjög skynsamlegt að við Íslendingar ályktum sterklega um málefni norðurslóða, um afstöðu okkar til þeirra mála og stöðu okkar innan þessa samstarfs. Ég get orðið við þeirri áskorun hæstv. utanríkisráðherra að lýsa stuðningi mínum við áframhaldandi baráttu gegn því að löndin fimm, Arctic five eins og þau eru kölluð á útlensku, standi að miklum fundarhöldum án okkar vegna þess að Norðurskautsráðið hefur heildaryfirsýnina yfir þetta svæði og þá málaflokka og þau atriði sem við eigum að einbeita okkur að.

Varðandi frekari fundarhöld get ég upplýst í þessari umræðu að á vettvangi NATO-þingsins, en ég er fulltrúi í Íslandsdeild NATO-þingsins, hefur umræða um norðurslóð verið mjög vaxandi og ég sem skýrsluhöfundur innan varnarmálanefndar flutti þinginu skýrslu á haustþingi þess í Póllandi í nóvember um einmitt öryggi á norðurslóðum og velti þeirri spurningu upp hvort NATO, Atlantshafsbandalagið, hefði þar einhverju hlutverki að gegna. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni hér en í tengslum við vinnuna við þá skýrslu átti ég þess kost að ferðast með þingmönnum frá fjöldamörgum NATO-ríkjum bæði til Danmerkur og til Grænlands, sem var afskaplega áhugaverð ferð, þar sem við skoðuðum þessi mál. Á fundinum í Póllandi var það upplýst af kanadískum þingmanni að forsætisráðherra Kanada hefði sagt honum að ekki yrðu frekari fundarhöld milli þessara fimm landa, og þá væntanlega meðan sá maður gegnir því starfi en hann talaði kannski ekki fyrir framtíðina. Þetta var hans eindregna skoðun og hann fullvissaði okkar ágæta kollega í kanadíska þinginu um að ekki yrði um frekari fundarhöld að ræða, vegna þess að það væri alveg ljóst að vænlegra væri til árangurs að þessi átta ríki ættu með sér samstarf þarna. Hins vegar verð ég að upplýsa, af því hæstv. utanríkisráðherra óskaði sér að frændur okkar Norðmenn væru okkur stundum betri vinir — ég man ekki nákvæmlega orðalagið, (Utanrrh.: Elskuðu okkur dýpra.) elskuðu okkur dýpra, sagði hann — að ég varð vör við meira hik frá frændum okkar Dönum í þessu. Þeir voru aðeins að agnúast út í að ég væri að draga fram þennan ágreining í skýrslunni og tæki skýra afstöðu með því að Norðurskautsráðið skyldi styrkt en ekki þetta fimm ríkja samband, og ég kom þar með athugasemdum okkar Íslendinga bakdyramegin á framfæri á þessum vettvangi. Ég tek því algjörlega undir þann málflutning og áherslur sem hæstv. utanríkisráðherra hefur viðhaft í þessum málum.

Erfitt er í stuttri ræðu að fara yfir hvert og eitt atriði í þessari tillögu en að meginstefnu til er ég hlynnt henni eins og ég sagði áðan. Mig langar að dvelja aðeins við 8. tölulið, öryggispunktinn, og ummæli hæstv. ráðherra varðandi hervæðingu á norðurslóðum. Ég tek undir þá ósk sem kemur fram í greinargerðinni að koma þurfi í veg fyrir hervæðingu norðurslóða. Í vinnu minni á vegum NATO-þingsins og að fyrrnefndri skýrslu kom glögglega fram, a.m.k. í orðum allra sem þar töluðu og allra þeirra sem ég ræddi við, að það er enginn ásetningur eða áhugi hjá þessum ríkjum, hvort sem það eru Atlantshafsríkin eða Rússland sem átti áheyrnarfulltrúa — ég átti orðaskipti við rússneskan þingmann — það er enginn áhugi hjá neinum þessara aðila að koma þarna af stað einhverju vígbúnaðarkapphlaupi. Hins vegar verðum við að hafa augun opin í þessu samhengi, það verður ekki fram hjá því litið, og þess vegna er ég ekki sammála því sem segir á bls. 6 að aukið vægi svæðisins á alþjóðavísu komi fram í auknum viðbúnaði norðurskautsríkja til að standa vörð um fullveldishagsmuni án þess þó að það hafi leitt til hernaðaruppbyggingar.

Það er nefnilega þannig, og við verðum bara að horfa á það með opnum augum, að þarna á sér stað ákveðin hernaðaruppbygging. Menn tefla henni ekki endilega fram sem ógnun, harðri ógnun, en það eru allir á tánum, allar þjóðirnar eru á tánum yfir því að mögulega finnist þarna auðlindir. Við vitum vel hvað getur gerst þegar auðlindirnar sem talað er um að geti fundist þarna einhvern tímann í framtíðinni verða orðnar að veruleika. Við verðum að gera okkur grein fyrir því án þess að fara að kalla „úlfur, úlfur“ að þarna á sér stað ákveðin hernaðaruppbygging.

Ég get nefnt nokkur dæmi. Við getum byrjað á að skoða Rússland. Við þekkjum það vel, Íslendingar, að allt frá því að Bandaríkjamenn fóru héðan hafa Rússar verið að fljúga hingað, í Noregi, inn í lofthelgi Bretlands, og verið mjög mikið hér á sveimi. Mér taldist til og ég var búin að afla mér upplýsinga um það við skýrslugerðina að það væru yfir 60 skipti sem rússneskar flugvélar hefðu komið hingað og í einhver skiptin inn í íslenska lofthelgi. Þau orðaskipti sem ég átti við rússneska þingmanninn voru mjög athyglisverð vegna þess að hann átti ekki orð yfir hvað ég væri að hans mati að væna þá um. Hann sagði að þetta væri bara það sem hann kallaði — ég leyfi mér að segja það á ensku — „pilot training“, að þetta væru æfingar flugmanna rússneska hersins. Ég svaraði honum fullum hálsi og benti honum á að væru þetta æfingar, gæti hann þá ekki komið þeim skilaboðum til síns ágæta flughers að betra væri að æfingaflugmennirnir gerðu grein fyrir sér, þannig að minni hætta væri á að þeir rækjust á íslenskar farþegaflugvélar eða aðrar farþegaflugvélar sem gætu verið þarna á sveimi, en eins og allir vita hafa Rússar ekki sent merki frá flugvélum sínum í þessum tilfellum. Þetta er ekki gert af borgaralegum hvötum einum saman.

Utanríkisráðherra Noregs sagði nýverið á fundi NATO-þingsins sams konar sögu, að Rússarnir væru mikið að banka þar upp á eins og við vitum. En Rússland er ekki eina ríkið. Í ferð okkar nefndarmanna til Grænlands kom líka í ljós að Bandaríkjamenn eru nýbúnir að uppfæra ratsjárkerfið í Thule. Það má segja að það sé ákveðin hernaðaruppbygging. Norðmenn hafa fært aðalherstöðvar sínar norður á bóginn og hafa keypt fimm nýjar freigátur. Þetta eru herskip þó svo að nota megi þetta allt í borgaralegum tilgangi en þetta eru dýrustu hergögn í norskri sögu að því er fréttir herma. Danir eru með eina sameiginlega norðurskautsherstöð og sameinar áður aðgreindar herstöðvar Grænlands og Færeyja. Það er líka til þess að gera þetta markvissara og einbeita sér að þessu svæði. Kanadamenn hafa ráðgert fjárfestingar í nýjum varðskipum, þjálfunarbúðum, djúpsjávarskipalægi og einnig er ráðgert að koma á fót sérstakri herdeild fyrir norðurskautið.

Ég ítreka að það er algjörlega minn skilningur að þessar þjóðir séu ekki á leiðinni í eitthvert hernaðarbrölt, svo ég grípi til frasa hæstv. fjármálaráðherra, en ég vil að við séum meðvituð um að þarna á sér stað ákveðin hernaðaruppbygging.

Í skýrslunni sem ég hef nefnt hér spurði ég þeirrar spurningar hvort það væri hlutverk fyrir bandalagið, Atlantshafsbandalagið, varðandi öryggismál norðurslóða. Ég svaraði þeirri spurningu á þann veg að NATO sé þegar með hlutverk vegna þess að það eru fimm norðurskautsríki innan bandalagsins þannig að þarna er ákveðið hlutverk. Ég tel hins vegar að við eigum að nota þetta, þetta er svona fókusgrúppa fyrir samstarf, bæði borgaralegt og hernaðarlegt. Við gerum okkur öll grein fyrir því bæði varðandi skemmtiferðaskipin sem gætu farið þarna niður og olíu- og umhverfisslys, að við verðum að nýta alla þá möguleika sem við höfum. Þess vegna segi ég að bandalagið hafi þarna ákveðnu hlutverki að gegna, þó (Forseti hringir.) ekki væri nema til þess að samræma og koma með allan búnað á staðinn ef eitthvað gerðist, með svipuðum hætti og það er með rústabjörgun (Forseti hringir.) sem er staðsett í Belgíu.

Ég lýk nú máli mínu, frú forseti, en þetta mál gætum við rætt hér mun lengur.